Annar af piltunum tveimur sem dæmdir voru í unglingafangelsi í fyrra í svokölluðu Steubenville-nauðgunarmáli var nýverið látinn laus vegna fyrirmyndarhegðunar. Hann sat inni í tíu mánuði. Tölvuhakkari sem opinberaði gögn sem leiddu til sakfellingar hans gæti aftur á móti fengið tíu ára fangelsisdóm.
Pilturinn, Ma´lik Richmond, var látinn laus í síðustu viku, en hann var fundinn sekur fyrir nauðgun. Hinn fékk lengri dóm vegna dreifingu á klámfengnum myndum og myndskeiðum af stúlkunni.
Málið er í stuttu máli á þann veg að ung stúlka kærði tvo jafnaldra sína, þá Richmond og Trent Mays, fyrir grófa kynferðisárás í heimabæ þeirra, Steubenville í Ohio, í ágúst 2012. Hún hafði hitt þá í partýi, þar sem henni voru gefin deyfilyf og síðan fóru þeir með hana á milli partýa þar sem þeir nauðguðu henni, niðurlægðu og misþyrmdu á ýmsan hátt, Fjöldi unglinga horfði á, en komu stúlkunni ekki til aðstoðar.
Piltarnir eru báðir í fótboltaliði menntaskóla bæjarins, en liðsmenn þess eru nánast í guðatölu meðal íbúa Steubenville. Algeng viðbrögð við því, þegar stúlkan lagði fram kæru, voru að hún hefði verið að reyna að koma sér í mjúkin hjá „vinsælu strákunum“ hún hafi átt þetta skilið og að með kærunni væri hún að kasta rýrð á fótboltaliðið og bæjarfélagið í heild. Viðbrögð bæjarbúa vöktu athygli bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra.
Richmond og Mays voru síðan dæmdir sekir í mars í fyrra.
Í yfirlýsingu, sem foreldrar Richmond sendu frá sér eftir að hann var látinn laus, segir að lífsreynslan hafi verið þeim „afar erfið“. Pilturinn muni nú einbeita sér að framtíð sinni og óski þess heitast að vera „venjulegur menntaskólaunglingur“.
Fjölskylda stúlkunnar sem Richmond nauðgaði og misþyrmdi, sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vonbrigðum yfir því að fjölskylda piltsins hefði ekki séð neina ástæðu til að láta í ljós iðrun yfir glæpnum eða biðjast afsökunar á þeirri sorg og vanlíðan sem framferði hans hefði valdið.
Deric Lustutter, meðlimur tölvuhakkarahópsins Anonymous, bíður nú dóms en hann gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist fyrir að hafa opinberað SMS-skilaboð og efni af samfélagsmiðlum sem átti stóran þátt í sakfellingu Steubenville-nauðgarana.
Það er talsvert lengri fangelsisdómur en nauðgararnir fengu.