30 hús hafa brunnið í Lærdal

Gríðarlegt tjón hefur orðið í eldinum.
Gríðarlegt tjón hefur orðið í eldinum. Ljósmynd/VG.no

Mjög alvarlegt ástand er í Lærdal í Noregi, en bærinn er innst inni í Sognsæ. 30 hús hafa brunnið til kaldara kola. 52 hafa verið lagðir inn á sjúkrahúsið í Lærdal vegna reykeitrunar.

Slökkviliðið fékk tilkynningu um eldinn um kl. 11 í gærkvöldi. Eldurinn magnaðist hratt, m.a. vegna þess að hvasst var í bænum. Slökkviliðsmönnum gekk því mjög illa að ráða við ástandið og hefur kallað eftir liðsauka.

Tvær þyrlur voru sendar frá herflugvellinum í Rygge til Lærdal í morgun. Ennfremur hefur verið tekin ákvörðun um að senda þyrlu frá Værnes til Lærdal sem er með sérstakan búnað til að fást við skógarelda.

Húsin sem brunnið hafa eru flest gömul timburhús. Gamla Lærdalseyri er verðlaunuð byggð og verndað minjasvæði. Þar eru um 160 trébyggingar, sumar frá tímabilinu 1700-1800.

Um 1200 manns  búa í Lærdal, þar af um 300 manns í miðbænum.

Mjög alvarlegt ástand

Guðbrandur Ingólfsson býr í nágrenni við Lærdal í bænum Årdal. Hann segir að ástandið í Lærdal sé mjög alvarlegt og að slökkviliðin, sem eru á staðnum, ráði ekki við eldinn. Hann segir að slökkviliðsmenn frá Lærdal, Årdal, Aurland og Voss berjist við eldinn. Slökkviliðið í Bergen ætlaði að senda mannskap til Lærdal í nótt.

Margir Íslendingar hafa búið og starfað í Lærdal, bæði á sjúkrahúsinu og eins hafa Íslendingar starfað á sumrin á hótelunum í bænum.

Hægt er að sjá myndskeið af brunanum á vef VG í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka