Það er útbreiddur misskilningur að forseti Úganda hafi ákveðið að synja lögum sem herða viðurlög við samkynhneigð í landinu staðfestingar. Hann sendi aðeins bréf til þingmanna þar sem hann lýsti skoðun sinni á málinu. Þetta segir talsmaður samkynhneigðra í Úganda sem mbl.is hitti nýverið í höfuðborginni Kampala.
Kasha J. Nabagesera, stofnandi samtaka hinsegin kvenna í Úganda, segir að í raun skipti engu máli hvað forsetinn geri. Staðfesti hann ekki lögin innan nokkurra daga fari þau sjálfkrafa aftur til þingsins sem mun þá að öllum líkindum samþykkja þau. Staðfesti hann lögin fer málið engu að síður aftur til þingsins sem mun taka það upp að nýju. Í raun þykir ólíklegt að forsetinn skipti sér frekar að málinu, hann hefur orðið fyrir miklum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu og því hans hagur að koma ekki meira að því, heldur láta þingið alfarið taka ábyrgðina.
En eitt er nokkuð víst að mati Köshu: Lögin munu taka gildi – þó að enginn, ekki einu sinni þingmennirnir sjálfir, viti nema lauslega út á hvað þau ganga. Kasha segir enn mögulegt að í lögunum sé heimilt að dæma samkynhneigða til dauða þó því hafi verið haldið fram að harðasta refsingin verði lífstíðarfangelsi. „Enginn veit þetta með vissu því fáir hafa séð frumvarpið í heild,“ segir hún.
Líflega borgin vettvangur nornaveiða
Höfuðborg Úganda, Kampala, breiðir úr sér milli sjö hæða við Viktoríuvatnið, skammt frá miðbaug. Hún vex hratt – líkt og víðast annars staðar leitar landsbyggðarfólk í þéttbýlið að betra lífi. Önnur skýringin er sú að fólksfjölgun í Úganda er ein sú mesta í heiminum. Fátæktarhverfi eru mörg í Kampala en margir búa við töluverða velmegun, sumir mikla.
Borgin er því langt frá því að vera einsleit. Hún er full af lífi allan sólarhringinn. En undanfarnar vikur hefur hún því miður orðið vettvangur nornaveiða – frumvarpið um viðurlög við samkynhneigð er sagt kveða á um að hver sá sem veit hvar hinsegin manneskju er að finna beri skylda til að tilkynna það. Margir hafa tekið þessu bókstaflega, jafnvel þótt að lögin hafi enn ekki tekið gildi.
Meðal þeirra eru boda boda-mennirnir. Þeir eru enginn sérstakur þjóðflokkur, ekki í hefðbundnum skilningi, heldur fjölmennur hópur mótorhjólamanna sem starfa við það að aka fólki um rauðgular götur borgarinnar. Þeir eru fleiri þúsund. Á því hefur borið frá því að þingið samþykkti lagafrumvarpið rétt fyrir jól, að boda boda-mennirnir noti þéttofið net sitt sem liggur um alla borgina og reyndar um allt landið, til að finna út hvar samkynhneigðir halda sig. „Þetta eru nornaveiðar,“ segir Kasha.
Ekki farið út síðan lögin voru samþykkt
Þegar ég og Kristín Heiða Kristinsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, hringjum í Köshu og segjumst vera í Kampala og vilja ná af henni tali, tekur hún strax vel í það. En það er ekki einfalt mál að komast að henni. Hún býr í einu úthverfa borgarinnar, skammt frá fjölskyldu sinni. Hún sendir mér leiðbeiningar í sms-skeyti hvert ég á að fara en það er bara byrjunin því þar hitti ég svo mann sem fylgdi okkur í gegnum hverfið og að húsi hennar. Þessar varúðarráðstafanir eru nauðsynlegar. Kasha er í lífshættu. Hún hefur ekki farið út fyrir húsið sitt og garðinn sem því tilheyrir frá því að þingið samþykkti lögin. Slíkt er einfaldlega ekki óhætt. Hún getur heldur ekki sett nafnið sitt á leigusamninginn því hún er þekkt sem talsmaður samkynhneigðra innan sem utan landsins. Enginn þorir að leigja slíkri manneskju.
Kasha býr með unnustu sinni í litlu, fallegu húsi. Umhverfis húsið er hár, steyptur veggur og járnhlið. Heimilishundurinn tekur tortrygginn á móti mér, honum er ekki sérstaklega vel við ókunnuga en mænir tryggðaraugum á eiganda sinn. Við setjumst út á verönd og Kasha segir mér hvað hafi gerst frá því að þingið samþykkti lögin.
Hún segir frumvarpið hafa fengið mjög snögga afgreiðslu. Nefnd hafi farið yfir umsagnir, m.a. frá samtökum hinsegin fólks sem Kasha stofnaði árið 2003. Hún útskýrir að ferlið sé þannig að frumvarpið í heild hafi í raun aldrei komið fyrir augu þingmannanna sem svo samþykktu það. Lokaskjalið var smíðað síðar og sent forsetanum. Hann hefur svo 30 daga til að staðfesta lögin eða synja þeim. Þriðji möguleikinn sem hann hefur er að gera ekki neitt og/eða senda athugasemdir sínar varðandi málið til þingsins. Það er í raun það sem hann hefur nú gert með bréfi sínu til þingmanna, þó að Kasha segi að hann hafi enn enga ákvörðun tekið um hvort hann ætli að samþykkja lögin eða synja þeim. Geri hann ekkert frekar fer frumvarpið einfaldlega aftur til meðferðar hjá þinginu, verður samþykkt, hugsanlega með breytingum, og lögin munu í kjölfarið taka gildi.
Um er að ræða þingmannafrumvarp og nýtur það stuðnings bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka. „Þetta er það mál sem sameinar þingmennina úr öllum fylkingum,“ segir Kasha.
Forsetinn mun segjast upptekinn af öðru
„Ég held að forsetinn muni ekki skrifa undir,“ segir Kasha. „Hann mun láta þingið um að samþykkja lögin. Þá kemst hann hjá því að taka ábyrgð á öllum vandræðunum sem munu fylgja. Hann gæti jafnvel sagt að hann væri einfaldlega of upptekinn af málefnum Suður-Súdan og hafi ekki tíma til að skoða málið.“
Á úgandska þinginu eru fleiri konur en í flestum löndum Afríku og þótt víðar væri leitað. Kasha segir að í þingmannahópnum séu stuðningsmenn hinsegin fólks en það sé mjög áhættusamt fyrir þá að segja skoðun sína opinberlega. „Það væri pólitískt sjálfsmorð,“ segir hún en bendir á að fjórir af 376 þingmönnum hafi þegar ákveðið að fara með lögin fyrir dómstóla og fá úr því skorið hvort að þau standist stjórnarskrá.
Samtökin Freedom and Roam Uganda, sem Kasha stofnaði, ætla sér að berjast gegn málinu þegar ljóst verður hvað forsetinn gerir. Kasha segir ekki tímabært að taka slaginn af fullu afli fyrr en málið er aftur komið til þingsins. Það séu þingmennirnir sem vilji málið í gegn – afstaða forsetans skipti ekki öllu.
Kasha segir mikilvægast núna að uppfræða samfélagið. Leiðrétta þær gríðarlegu rangfærslur sem haldið er fram um hinsegin fólk. Í augnablikinu er ekki óhætt fyrir samkynhneigða að sjást opinberlega – múgæsingin er of mikil.
Ofbeldi beitt eftir samþykkt frumvarpsins
„Ég fer ekki út. Ég er bara hér,“ segir Kasha og lítur í kringum sig í litla garðinum sínum. Hún bendir á að aðeins tveimur klukkustundum eftir að frumvarpið var samþykkt fyrir jól hafi vinkona hennar, sem er transkona, verið handtekin þar sem hún var á gangi í Kampala. „Við vitum að fólk hefur þurft að þola barsmíðar. Margir taka lögin bara í sínar eigin hendur.“
Hún segir því mikilvægast af öllu núna að breyta viðhorfum fólks og koma réttum upplýsingum á framfæri. Slíkt átak er þegar hafið, m.a. með því að láta raddir hinsegin fólks í Úganda heyrast í fjölmiðlum víðs vegar um heiminn. Úgandskir fjölmiðlar eru ritskoðaðir og Kasha segir að erfitt sé fyrir þá, jafnvel ómögulegt, að fjalla um málefni hinsegin fólks með hlutlausum hætti.
„Margt hinsegin fólk hefur farið aftur inn í skápinn,“ segir Kasha. Óttinn er mikill og ekki að ástæðulausu. Nokkrum dögum eftir að þingið samþykkti frumvarpið skrifaði Kasha varnaðarorð til félaga sinna á Facebook: „Ég var að tala við þingkonu. Hún segir ástandið ekki gott. Vinsamlega lítið eftir hvert öðru.“
Hún segir m.a. dæmi þess að undanfarið hafi nágrannar sagt til samkynhneigðra í sínum hverfum. Þeir hafi í kjölfarið misst húsnæði sín.
Bókstafstrúarmenn breiða út lygar
En hvers vegna eru fordómar gagnvart hinsegin fólk svo útbreiddir í Úganda?
„Það er af því að fólk hefur verið fóðrað með lygum,“ segir Kasha ákveðin. Hún segir áróðurinn að mestu runninn undan rifjum bókstafstrúarmanna sem aðhyllast evangelísku kirkjuna (e. evangelical Christianity). Sú kirkjudeild nýtur sífellt meira fylgis í Úganda en á rætur sínar m.a. í sterku samfélagi bókstafstrúarmanna í Bandaríkjunum. Forsetinn er meðal þeirra sem aðhyllast þá trú. Hún neitar því að það sé eitthvað sérstakt í menningu Úganda sem orsaki þetta – bókstafstrúarmennirnir eigi peninga og hafi plantað sjúkum fræjum sínum í huga fátækrar þjóðar.
Kasha segist sjálf hafa upplifað mikið hatur og fordóma í sinn garð – en fólk er þó á báðum áttum. Hún segir að fólk komi stundum vel fram við sig en stuttu seinna elti þetta sama fólk hana á hlaupum og berji. Það hafi ítrekað komið fyrir.
„Það er mikill ótti meðal allra. Það hefur verið alið á þessum ótta,“ segir Kasha og rifjar upp að á ráðstefnu evangelísku kirkjunnar árið 2009 hafi því beinlínis verið haldið fram að hinsegin fólk lokki börn til samkynhneigðar. Forsvarsmenn kirkjudeildarinnar hafa mikil ítök, m.a. í háskólunum og á þinginu. Ekki leið á löngu þar til frumvarp kom fram um að dæma mætti samkynhneigða til dauða. Og áróðurinn fór að skila sér – fólk fór að óttast um börn sín. Fordómar gagnvart samkynhneigðum breiddust hratt út.
Kasha segir að margt hinsegin fólk hafi í kjölfarið ákveðið að flýja land. Sjálf segist hún aldrei hafa íhugað að yfirgefa landið sitt. „Ég elska þetta land, þetta er fallegasti staður í heimi,“ segir hún og brosir. En það er ekki eina skýringin. Hún finnur til ábyrgðar gagnvart samfélagi hinsegin fólks og vill halda áfram að berjast fyrir mannréttindum. „Við verðum að standa saman og berjast gegn þessu saman.“
Hún segir að þegar ástandið verði yfirþyrmandi fari hún í ferðalög til annarra landa til að hreinsa hugann og styrkja sig. Hún hefur m.a. komið til Íslands til að ræða um málefni hinsegin fólks.
Ekki rétt að hætta þróunaraðstoð
Hún segist finna fyrir miklum stuðningi, m.a. frá öðrum löndum. Að undanförnu hefur m.a. verið hvatt til þess að fólk hætti viðskiptum við Úganda og ferðist ekki þangað til að beita stjórnvöld þrýstingi. Kasha segir það gagnslaust. „Þetta mun aðeins hafa neikvæð áhrif á efnahaginn hér, og það hefur áhrif á okkur öll.“ Hún segist því algjörlega mótfallin að lönd dragi úr stuðningi sínum og þróunaraðstoð við Úganda vegna málsins.
Þrátt fyrir allt er ýmislegt sem breyst hefur til hins betra fyrir hinsegin fólk í Úganda frá því að Kasha stofnaði samtök sín árið 2003. Hinsegin fólk er sýnilegra, hommar og lesbíur hafa stigið fram og rætt opinberlega um kynhneigð sína. Lagafrumvarpið hefur þó haft gríðarlega slæm áhrif og bakslag komið í baráttuna. Henni verður þó haldið áfram. Kasha mun sjá til þess.