Yfirvöld í Lærdal segja að rafmagn muni að öllum líkindum ekki komast aftur á bæinn í nótt í kjölfar eldsvoðans sem kviknaði í gærkvöldi. Íbúar sem urðu að rýma heimili sín fengu að fara til baka til að sækja eigur í fylgd lögreglu. Heimilidin var síðan afturkölluð í kvöld þar sem það fór að hvessa.
Alls urðu um 400 íbúar að rýma hús sín vegna brunans. Þrátt fyrir að slökkviliðsmenn hafi náð að ráða niðurlögum eldsins síðdegis í dag þá er hvasst í bænum og sú hætta er fyrir hendi að eldur blossi aftur upp.
Norsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni aðstoða bæjaryfirvöld við uppbyggingarstarf í bænum. Lögreglan segir að 23 hús, þar af 16 heimili, hafi gjöreyðilagst í brunanum og fleiri hafa laskast.
Mörg önnur bæjarfélög í Noregi hafa áhyggur af því að svona stórbruni geti komið upp hjá sér, enda gömul timburhús að finna víða í Noregi.
Mikil mildi þykir að enginn hafi látist í eldsvoðanum, en tæplega 100 voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Flestir vegna reykeitrunar.