Skelfileg sýn blasti við íbúum í Lærdal í Noregi þegar það fór að birta af degi í dag, en þá varð mönnum ljóst sú mikla eyðilegging sem varð í brunanum í nótt. Mörg hús gjöreyðilögðust í eldsvoðanum. Margir eru hins vegnar fegnir að elsti hluti bæjarins virðist hafa sloppið alveg.
Tilkynning um eldinn barst kl. 22:54 að staðartíma í gærkvöldi. Íbúi segir í samtali við norska ríkisútvaprpið að mönnum hafi verið afar brugðið. Hann segir að margir hafi haft áhyggjur af öryggi sínu, en í bænum liggja mörg timburhús þétt saman. Hins vegar hafi verið gripið til sérstakra eldvarnaráðstafana í gamla bænum í Lærdalseyri, sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Um 300 íbúar urðu að rýma heimili sín vegna eldsins. Slökkviliðsmönnum gekk illa að ráða niðurlögum hans, m.a. vegna þess að hvassviðri gerði slökkvistarfið erfitt.
Talið er að hátt í 30 hús hafi skemmst mikið eða eru gjörónýt eftir brunann að sögn lögreglu. Enginn hefur látist og þá hefur enginn hlotið alvarlega áverka af völdum elds.
Hins vegar voru ríflega 50 fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, er væntanleg til bæjarins til að virða fyrir sér eyðilegginguna og ræða við bæjarbúa.
Þá hefur lögreglan í bænum óskað eftir aðstoð norsku rannsóknarlögreglunnar KRIPOS um aðstoð við rannsókn á eldsupptökunum.
Fram kemur á vef RÚV að um 20 Íslendingar séu búsettir í bænum, en mbl.is hefur ekki náð sambandi við þá í síma. En símasambandlaust er í bænum.