Flygildi flækjast fyrir

Miðbærinn í Lærdal var eitt eldhaf í nótt.
Miðbærinn í Lærdal var eitt eldhaf í nótt. ARNE VEUM

Þyrla sem nota átti til að slökkva elda í bænum Lærdal í Noregi hefur neyðst til að halda sig frá eldinum vegna þess að flygildi hafa flogið yfir bænum til að taka myndir. Talið er að flygildin séu að taka myndir fyrir fjölmiðla. Lögregla segir að hættulegt sé fyrir þyrluna að fljúga þegar þessi tæki eru nálæg.

Eldar brunnu enn í Lærdal í morgun, en a.m.k. 30 hús eru brunnin til kaldra kola. Mörg gömul hús eru í Lærdal. Flest hús í gamla miðbænum, sem eru frá 18. og 19. öld, björguðust. Fjöldi ferðamanna kemur til bæjarins á hverju ári til að skoða þessi hús.

Yfir 100 slökkviliðsmenn börðust við eldana í nótt. Ekki varð við neitt ráðið vegna strekkingsvinds sem blés í glæðurnar. Eldurinn náði í skóglendi við miðbæinn og hann varð því fljótlega eitt eldhaf.

Mörg hundruð íbúar voru fluttir á brott og leitaði fjöldi manns á sjúkrahús vegna reykeitrunar. Fólk fékk reykeitrun þegar það var að reyna að bjarga eigum út úr húsum sínum.

Fjarskiptasamband hefur verið mjög slæmt í Lærdal og er fólk hvatt til að hringja ekki að óþörfu. Ekki hafa borist fréttir af þeim Íslendingum sem búa í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert