Stórbruninn í Lærdal í Noregi er sá mesti í landinu í um 45 ár. Eldurinn kviknaði í timburhúsi í gærkvöldi en hann breiddist mjög hratt út í nærliggjandi hús, sem voru einnig úr timbri. Alls eyðilögðust 23 hús, þar af 16 heimili.
Yfirvöld í segja að eldsvoðinn sé sá versti á síðari tímum, að því er segir á vef norska ríkisútvarpsins. Menn þurfi að horfa til ársins 1969 til að finna sambærilegt dæmi, en þá var stórbruni í Tromsø. Þá kviknaði eldur við höfnina sem breiddist hratt út. Svo fór að eldsvoðinn varð sá mesti á Norðurlöndunum frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá brunnu 24 hús til grunna, þar á meðal sögufrægar og gamlar byggingar.
Mikil eldur geisaði í Björgvin árið 1955 og þar brann stór hluti gamalla bygginga við höfnina til kaldra kola. Eldsvoðinn var hins vegar ekki jafn stór í sniðum og eldsvoðinn í Lærdal og í Tromsø, en þar brunnu aftur á móti mikil menningarverðmæti.
Búið er að kortleggja alla bæi og byggðir þar sem er að finna svipaðar byggðir timburhúsa sem standa þétt saman. Þær eru alls 167 talsins og þar af eru tvær slíkar byggðir í Lærdal. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur eldsvoði geisar í bænum og ljóst er að þarna hafa mikil menningarverðmæti orðið eldi að bráð.
Norska rannsóknarlögreglan Kripos aðstoðar nú við rannsókn málsins. Þá mun sérstök nefnd skoða það hvort það hefði mátt koma í veg fyrir stórbruna sem þennan.
Enn er rafmagnslaust í Lærdal en talið er að hluti bæjarins fái rafmagn í nótt. Þó er talið mögulegt að íbúar verði án rafmagns í nokkra daga. Þá hefur verið símasambandslaust, en NRK greindi frá því í kvöld að símasamband á sjúkrahúsi bæjarins hafi aftur komist á.