Snúa aftur til að sækja eigur

Hluti svæðisins sem varð eldi að bráð.
Hluti svæðisins sem varð eldi að bráð. AFP

Íbúar í norska bænum Lærdal sem urðu að yfirgefa heimili sín í gærkvöldi og í nótt vegna stórbruna hafa fengið að snúa aftur heim til síns heima í lögreglufylgd til að sækja eigur sínar. Alls hafa 23 hús gjöreyðilagst, þar af 16 heimili.

Rýmingin tók til 400 einstaklinga og þá voru um 90 fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar vegna brunans, flestir vegna reykeitrunar. Enginn hefur látist í brunanum.

Fyrsta tilkynning um eldsvoðann barst skömmu fyrir kl. 23 í gærkvöldi að staðartíma.

Enginn eldur logar lengur á svæðinu en yfirvöld benda hins vegar á að sú hætta sé fyrir hendi að hann blossi upp á ný. Þá er víðast hvar enn rafmagnslaust og farsímanetið liggur enn niðri. 

Þá hefur norska rannsóknarlögreglan Kripos verið beðin um að aðstoða lögreglu við rannsókn málsin.

Gömul friðuð hús eru á meðal þeirra bygginga sem urðu eldinum að bráð, en svo virðist sem gamli bærinn í Lærdalseyri, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, hafi sloppið.

Haraldur Noregskonungur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann kemur þökkum á framfæri til þeirra sem hafa tekið þátt í björgunarstarfinu. Hann segir að bruninn snerti alla landsmenn.

Um 20 Íslendingar eru búsettir í Lærdal.

Frá brunanum í nótt.
Frá brunanum í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert