Glóð um allt og enginn réð við neitt

Frá Lærdal í Noregi
Frá Lærdal í Noregi AFP

30 hús brunnu til kaldra kola eða skemmdust í stórbruna í Lærdal í Noregi. Hrafnhildur Elvarsdóttir, íbúi í Lærdal, telur að verr hefði getað farið en það hafi orðið bænum til happs að stíf austanátt gekk niður og fyrir vikið stöðvaðist útbreiðsla eldsins. Að hennar sögn þurftu fjórir Íslendingar að rýma hús sín en ekkert eignatjón varð á þeim húsum.

Hrafnhildur sá götuna í ljósum logum „Ég var á bakvakt. Svo hringdi ein úr vinnunni í mig hágrátandi og sagði mér að hún væri búin að missa húsið sitt. Ég fór út í bíl og keyrði niður í bæ. Þar stóð heil gata í ljósum logum. Glóðin fauk yfir allt og enginn réð neitt við neitt,“ segir Hrafnhildur, sem stýrir hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Lærdal. Að hennar sögn þurfti að flytja sex dvalarmenn af heimilinu en þar dvelja 36 alls.

„Svo vorum við með rútu til að flytja alla hina ef vindáttin hefði breyst,“ segir Hrafnhildur. Hún segir fjóra Íslendinga hafa þurft að rýma hús sín. „Hjá einum var kviknað í þakskegginu en þeir náðu að bjarga húsinu,“ segir Hrafnhildur. Hún segir að ekki hafi verið hægt að kvarta yfir viðbrögðum við eldsvoðanum. „Það var bara verst að vera símasambandslaus og ekki geta látið neinn vita af sér,“ segir Hrafnhildur sem sjálf hafði keyrt út Sognfjörð, þar sem símasamband var, til þess að tala við ættingja, þegar blaðamaður náði tal af henni.

Hún hefur búið í Lærdal frá árinu 2010 ásamt Sigurði Páli Ólafssyni, eiginmanni sínum, og sex ára dóttur þeirra, Svanhildi Ingu Sigurðardóttur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert