„Hefur áhrif á okkur öll“

Svona var umhorfs í Lærdal í gær.
Svona var umhorfs í Lærdal í gær. AFP

Rafmagn er komið á í hluta bæjarins Lærdal í Sognfirði í Noregi, þar sem 30 hús urðu stórbruna að bráð á laugardaginn. Símasamband, sem lá niðri um tíma, er komið á og íbúar fá að vitja eigna sinna í dag, segir Jóhann Halldór Traustason, sem búsettur er í Øvre Årdal skammt frá Lærdal.

Jóhann hefur fylgst grannt með gangi mála í nágrannabænum og segir flesta skóla, leikskóla og aðrar þjónustustofnanir lokaðar í Lærdal í dag. „Mér skilst að fólk fái að vitja eigna sinna undir eftirliti lögreglu og slökkviliðs síðar í dag. Vegurinn að Lærdal var lokaður vegna bruna- og sprengihættu á svæðinu meirihluta gærdagsins, en var opnaður undir kvöld.“

Jóhann starfar í álveri Norsk Hydro og hefur verið búsettur í Noregi frá árinu 2008. Hann segir eldsvoðann reiðarslag fyrir íbúa á svæðinu, en þeir standi þétt saman og þeir sem þurftu að yfirgefa heimili sín hafi fengið inni á hótelum í nágrannabæjunum. „Þetta hefur ekki bara áhrif á fólki í Lærdal, heldur okkur öll,“ segir Jóhann.

Bruninn í Lærdal er sá mesti í Noregi í 45 ár. Upptök eldsins voru í timburhúsi á laugardagskvöldið, en hann breiddist skjótt út í nærliggjandi hús sem einnig voru úr timbri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka