„Margir hefðu getað brunnið inni“

Bruninn er annar stærsti frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Bruninn er annar stærsti frá lokum síðari heimsstyrjaldar. AFP

„Ef eldurinn hefði kviknað síðar hefðu margir getað brunnið inni. Það var slembilukka að eldurinn kviknaði ekki seinna,“ segir Guttorm Gullaksen, slökkviliðsstjóri í Lærdal. 

„Ef eldurinn hefði komið upp seinna um kvöldið hefði slökkvilið og bæjarbúar verið í fasta svefni. Aðstæður hefðu verið þannig að eldurinn hefði uppgötvast síðar, svo seint að margir hefðu kannski ekki komist út. Slökkviliðið hefði komið seinna á staðinn, sem hefði líka verið til þess fallið að valda hörmungum,“ segir Gullkasen í viðtali við NRK.

Skelfileg sýn blasti við íbúum í Lærdal í Noregi þegar það fór að birta af degi í gær, en þá varð mönnum ljóst sú mikla eyðilegging sem varð í brunanum í nótt. Mörg hús gjöreyðilögðust í eldsvoðanum. Margir eru hins vegnar fegnir að elsti hluti bæjarins virðist hafa sloppið alveg.

Tilkynning um eldinn barst kl. 22:54 að staðartíma í fyrrakvöld. Íbúi segir í samtali við norska ríkisútvarpið að mönnum hafi verið afar brugðið. Hann segir að margir hafi haft áhyggjur af öryggi sínu, en í bænum liggja mörg timburhús þétt saman. Hins vegar hafi verið gripið til sérstakra eldvarnaráðstafana í gamla bænum í Lærdalseyri, sem er á heimsminjaskrá UNESCO.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert