Mótókrossmeistari missti allt í Lærdal-eldsvoðanum

Oddgeir Havnen og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ræddu um brunann …
Oddgeir Havnen og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ræddu um brunann er Solberg sótti Lærdal heim í morgun. Skjáskot af nrk.no

Einn þeirra sem misstu allar eigur sínar í stórbrunanum í norska bænum Lærdal í Sognfirði á laugardaginn var Oddgeir Havnen, sem er margfaldur Noregs- og Norðurlandameistari í mótókross, en hann átti heimili sitt í bænum. Meðal þess sem brann voru allir verðlaunagripir hans af áralöngum ferli.

Í viðtali við norska ríkissjónvarpið NRK segir Havnen að hann hafi fyrst orðið var við eldinn um 11-leytið á laugardagskvöldið. Hann brá skjótt við og reyndi sjálfur að slökkva eldinn í húsi sínu áður en hann þurfti að lúta í lægra haldi. „Við reyndum að slökkva eldinn,“ segir hann. „Það leit út fyrir að okkur tækist það, en þá breyttist vindáttin.“

„Slökkviliðið barðist vonlausri baráttu við verstu aðstæður,“ bætir hann við.

Alls urðu 23 byggingar eldinum að bráð, þar af 16 íbúðarhús. Nokkur til viðbótar eru óíbúðarhæf.

„Það er skelfilegt að hugsa um allt það sem brann hérna,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs er hún kom til Lærdal í morgun. „En þegar öllum lífum er borgið, þá er mikilvægt að hafa í huga að þetta voru bara hlutir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert