Nauðganir og morð daglegt brauð

Achin Mapio og Mary Yar hafa undanfarnar vikur upplifað meiri …
Achin Mapio og Mary Yar hafa undanfarnar vikur upplifað meiri hörmungar en flestir aðrir alla ævina. AFP

Þeim var ít­rekað nauðgað, þær horfðu á fólk dregið út og skotið til bana og öll­um mat þeirra var stolið. Þær Achin Mapio og Mary Yar eru sjúk­ling­ar á sjúkra­hús­inu í Bor í Suður-Súd­an. Þær hafa, líkt og fjöl­marg­ir fleiri íbú­ar þessa stríðshrjáða lands, skelfi­leg­ar sög­ur að segja. Það er hins veg­ar alltaf spurn­ing um hversu marg­ir gefa sér tíma til að heyra hvað al­menn­ing­ur í þessu yngsta ríki heims hef­ur fram að færa.

Þær lýsa hryll­ingn­um sem íbú­ar í Bor hafa þurft að upp­lifa að und­an­förnu. Áður bjó þar um ein millj­ón manna, nú er borg­in nán­ast rúst­ir ein­ar og lykt af rotn­andi lík­um er yfirþyrm­andi.

 „Ég var fót­brot­in og þess vegna er ég hér,“ út­skýr­ir Mapio, 39 ára sjö barna móðir. Hún seg­ir að upp­reisn­ar­menn­irn­ir hafi komið og sótt þær á sjúkra­húsið og beitt þær of­beldi. Hún vill ekki fara nán­ar út í hvað var gert við hana og aðra fanga en að sögn sjúk­lings sem AFP frétta­stof­an ræddi við var þeim nauðgað af hópi upp­reisn­ar­manna dag eft­ir dag.

„Við fáum ekk­ert að borða. Það er eng­an mat að fá. Þeir drepa fólk. Margt fólk hef­ur verið drepið hér. Þeir hafa jafn­vel skotið fár­veikt fólk,“ seg­ir Mapio. „Ég hef séð marga drepna. Ég bið til Guðs um að ég lifi af og hitti fjöl­skyldu mína á nýj­an leik.“

Á laug­ar­dag end­ur­heimti stjórn­ar­her­inn Bor úr hönd­um upp­reisn­ar­manna sem eru hliðholl­ir fyrr­ver­andi vara­for­seta lands­ins, Riek Mach­ar.

Átök­in blossuðu upp 15. des­em­ber þegar for­seti Suður-Súd­ans, Sal­va Kiir, sakaði fyrr­ver­andi vara­for­seta lands­ins, Riek Mach­ar, um að hafa reynt að fremja vald­arán. Mach­ar neit­ar þessu og seg­ir ásök­un for­set­ans vera upp­spuna sem hann hafi notað sem tylli­á­stæðu til að hand­taka póli­tíska and­stæðinga og koma á ein­ræði. Mach­ar krefst þess að Kiir segi af sér og for­set­inn hef­ur neitað að deila völd­un­um með Mach­ar og banda­mönn­um hans, að því er fram kom í um­fjöll­un Morg­un­blaðsins í byrj­un árs.

Ótt­ast að of­beldið haldi áfram

Mary Yar ótt­ast að upp­reisn­ar­menn­irn­ir komi aft­ur og of­beldið haldi áfram. „Við ótt­umst að ef þetta fólk... þegar það kem­ur muni það nauðga okk­ur,“ seg­ir hún.

 Ayor Garang seg­ist hafa verið hepp­inn að vera á lífi og tel­ur að upp­reisn­ar­menn­irn­ir hafi séð aum­ur á hon­um þar sem hann er blind­ur. Þeir sjái að hann kom­ist hvergi vegna blind­unn­ar og því sjái þeir ekki ástæðu til að drepa hann.

„Þegar upp­reisn­ar­menn­irn­ir komu tóku þeir það sem var eft­ir að mat og drápu sjúk­linga. Þess­ir tveir sem eru dauðir hér fyr­ir utan voru rifn­ir úr rúm­um sín­um... ann­ar lamaður að hluta. Þeir voru skotn­ir inni á sjúkra­hús­inu eða hér fyr­ir utan,“ seg­ir hann.

Fyr­ir utan sjúkra­húsið og á göt­um úti liggja lík eins og hráviði. Rotn­andi í hit­an­um og rak­an­um. Ein­hver lík­in eru af fólki sem var drepið fyr­ir nokkr­um vik­um þegar stjórn­ar­her­inn náði í fyrsta skipti aft­ur yf­ir­ráðum yfir Bor af upp­reisn­ar­mönn­um. Það hef­ur eng­um þótt taka því að grafa lík­in. Enda í huga margra bara spurn­ing um hvenær völd­in yfir Bor fær­ast á nýj­an leik í hend­ur upp­reisn­ar­manna. Borg þar sem nán­ast all­ir ferðafær­ir íbú­ar hafa flúið.

Átök­in und­an­farn­ar vik­ur hafa einnig verið rak­in til tog­streitu milli tveggja stærstu þjóðern­is­hópa Suður-Súd­ans. Mach­ar er helsti stjórn­mála­leiðtogi næst­stærsta þjóðern­is­hóps­ins, Nuer-manna. Kiir for­seti er úr röðum Dinka-manna, stærsta þjóðern­is­hóps­ins. Dinka-menn hafa verið sakaðir um að vilja drottna yfir öðrum þjóðern­is­hóp­um í land­inu.

Átök­in stafa þó fyrst og fremst af valda­bar­áttu mann­anna tveggja og marg­ir þeirra sem hafa gagn­rýnt Kiir eru Dinka-menn eins og for­set­inn. Blóðsút­hell­ing­arn­ar hafa hins veg­ar kynt und­ir tog­streit­unni milli þjóðern­is­hóp­anna og hún er tal­in auka hætt­una á blóðugu borg­ara­stríði. Marg­ir and­stæðing­ar Machars telja að hann vilji auka völd Nuer-manna á kostnað Dinka-manna.

Suður-Súd­an varð sjálf­stætt ríki í júlí 2011 sam­kvæmt friðarsamn­ingi við stjórn Súd­ans eft­ir tveggja ára­tuga borg­ara­stríð. Ráðamenn nýja rík­is­ins eru all­ir fyrr­ver­andi skæru­liðafor­ingj­ar og reynsl­an sýn­ir að þegar póli­tísk vanda­mál koma upp hneigj­ast þeir til að reyna að leysa þau með hernaði og of­beldi frek­ar en samn­ing­um.

Þrátt fyr­ir mikl­ar ol­íu­auðlind­ir Suður-Súd­ans er landið á meðal vanþróuðustu ríkja heims vegna ófriðar­ins síðustu ára­tugi. Ráðamenn­irn­ir hafa lofað að bæta lífs­kjör al­menn­ings en hafa hneigst til þess að nota völd sín til að skara eld að sinni eig­in köku.

Eyðileggingin blasir við í héraðhöfuðstaðnum Bor
Eyðilegg­ing­in blas­ir við í héraðhöfuðstaðnum Bor AFP
Frá Bor
Frá Bor AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert