Þeim var ítrekað nauðgað, þær horfðu á fólk dregið út og skotið til bana og öllum mat þeirra var stolið. Þær Achin Mapio og Mary Yar eru sjúklingar á sjúkrahúsinu í Bor í Suður-Súdan. Þær hafa, líkt og fjölmargir fleiri íbúar þessa stríðshrjáða lands, skelfilegar sögur að segja. Það er hins vegar alltaf spurning um hversu margir gefa sér tíma til að heyra hvað almenningur í þessu yngsta ríki heims hefur fram að færa.
Þær lýsa hryllingnum sem íbúar í Bor hafa þurft að upplifa að undanförnu. Áður bjó þar um ein milljón manna, nú er borgin nánast rústir einar og lykt af rotnandi líkum er yfirþyrmandi.
„Ég var fótbrotin og þess vegna er ég hér,“ útskýrir Mapio, 39 ára sjö barna móðir. Hún segir að uppreisnarmennirnir hafi komið og sótt þær á sjúkrahúsið og beitt þær ofbeldi. Hún vill ekki fara nánar út í hvað var gert við hana og aðra fanga en að sögn sjúklings sem AFP fréttastofan ræddi við var þeim nauðgað af hópi uppreisnarmanna dag eftir dag.
„Við fáum ekkert að borða. Það er engan mat að fá. Þeir drepa fólk. Margt fólk hefur verið drepið hér. Þeir hafa jafnvel skotið fárveikt fólk,“ segir Mapio. „Ég hef séð marga drepna. Ég bið til Guðs um að ég lifi af og hitti fjölskyldu mína á nýjan leik.“
Á laugardag endurheimti stjórnarherinn Bor úr höndum uppreisnarmanna sem eru hliðhollir fyrrverandi varaforseta landsins, Riek Machar.
Átökin blossuðu upp 15. desember þegar forseti Suður-Súdans, Salva Kiir, sakaði fyrrverandi varaforseta landsins, Riek Machar, um að hafa reynt að fremja valdarán. Machar neitar þessu og segir ásökun forsetans vera uppspuna sem hann hafi notað sem tylliástæðu til að handtaka pólitíska andstæðinga og koma á einræði. Machar krefst þess að Kiir segi af sér og forsetinn hefur neitað að deila völdunum með Machar og bandamönnum hans, að því er fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í byrjun árs.
Óttast að ofbeldið haldi áfram
Mary Yar óttast að uppreisnarmennirnir komi aftur og ofbeldið haldi áfram. „Við óttumst að ef þetta fólk... þegar það kemur muni það nauðga okkur,“ segir hún.
Ayor Garang segist hafa verið heppinn að vera á lífi og telur að uppreisnarmennirnir hafi séð aumur á honum þar sem hann er blindur. Þeir sjái að hann komist hvergi vegna blindunnar og því sjái þeir ekki ástæðu til að drepa hann.
„Þegar uppreisnarmennirnir komu tóku þeir það sem var eftir að mat og drápu sjúklinga. Þessir tveir sem eru dauðir hér fyrir utan voru rifnir úr rúmum sínum... annar lamaður að hluta. Þeir voru skotnir inni á sjúkrahúsinu eða hér fyrir utan,“ segir hann.
Fyrir utan sjúkrahúsið og á götum úti liggja lík eins og hráviði. Rotnandi í hitanum og rakanum. Einhver líkin eru af fólki sem var drepið fyrir nokkrum vikum þegar stjórnarherinn náði í fyrsta skipti aftur yfirráðum yfir Bor af uppreisnarmönnum. Það hefur engum þótt taka því að grafa líkin. Enda í huga margra bara spurning um hvenær völdin yfir Bor færast á nýjan leik í hendur uppreisnarmanna. Borg þar sem nánast allir ferðafærir íbúar hafa flúið.
Átökin undanfarnar vikur hafa einnig verið rakin til togstreitu milli tveggja stærstu þjóðernishópa Suður-Súdans. Machar er helsti stjórnmálaleiðtogi næststærsta þjóðernishópsins, Nuer-manna. Kiir forseti er úr röðum Dinka-manna, stærsta þjóðernishópsins. Dinka-menn hafa verið sakaðir um að vilja drottna yfir öðrum þjóðernishópum í landinu.
Átökin stafa þó fyrst og fremst af valdabaráttu mannanna tveggja og margir þeirra sem hafa gagnrýnt Kiir eru Dinka-menn eins og forsetinn. Blóðsúthellingarnar hafa hins vegar kynt undir togstreitunni milli þjóðernishópanna og hún er talin auka hættuna á blóðugu borgarastríði. Margir andstæðingar Machars telja að hann vilji auka völd Nuer-manna á kostnað Dinka-manna.
Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki í júlí 2011 samkvæmt friðarsamningi við stjórn Súdans eftir tveggja áratuga borgarastríð. Ráðamenn nýja ríkisins eru allir fyrrverandi skæruliðaforingjar og reynslan sýnir að þegar pólitísk vandamál koma upp hneigjast þeir til að reyna að leysa þau með hernaði og ofbeldi frekar en samningum.
Þrátt fyrir miklar olíuauðlindir Suður-Súdans er landið á meðal vanþróuðustu ríkja heims vegna ófriðarins síðustu áratugi. Ráðamennirnir hafa lofað að bæta lífskjör almennings en hafa hneigst til þess að nota völd sín til að skara eld að sinni eigin köku.