„Við stólum hvert á annað“

Eyðileggingin blasir við í Lærdal.
Eyðileggingin blasir við í Lærdal. EPA

„Hér er allt meira eða minna lokað og við stólum hvert á annað,“ segir Þuríður Valdimarsdóttir sjúkraliði sem býr og starfar í bænum Lærdal í Sognfirði í Noregi, en þar brunnu fjölmörg hús í eldsvoða á laugardaginn. Norska rannsóknarlögreglan Kripos rannsakar nú upptök eldsins og talið er að tjónið nemi tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna. 

„Við vitum í rauninni fremur lítið, hér er símasambandslaust að mestu, netlaust og lítil samskipti,“ segir Þuríður.

Hún starfar á dvalarheimili fyrir aldraða í bænum og var við störf þegar mbl.is náði tali af henni í morgun. Hún segir íbúa heimilisins, sem og aðra bæjarbúa, vera slegna yfir atburðum.

Hús Þuríðar slapp við skemmdir, en nálæg hús eru gjörónýt. Henni var gert að yfirgefa heimili sitt á laugardagskvöldið og dvelur nú, ásamt fjölskyldu sinni, á sveitabæ skammt fyrir utan. „Ég fékk að fara heim í gær til að sækja föt til skiptanna og astmalyfin mín. Annars er bærinn lokaður og það er rusl úti um allt; tréplötur og brak úr húsum. Það er farið að hvessa og það er talin hætta á að þetta fari að fjúka um allt.“

Lofar opinberri aðstoð

Norska rannsóknarlögreglan Kripos er nú við störf í Lærvik og rannsakar upptök eldsins, en þau eru enn ókunn.

Norsk tryggingafélög eru þegar farin að áætla tjónið sem af brunanum hlaust. Talsmaður tryggingafélagsins If segir í samtali við Dagsavisen í dag að tjónið gæti numið meira en 100 milljónum norskra króna, um 1,9 milljörðum íslenskra króna, en alls brunnu 23 byggingar í eldsvoðanum, þar af 16 íbúðarhús. Að auki urðu ýmsar aðrar skemmdir. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kom til Lærvik í morgun og lofaði opinberri aðstoð til uppbyggingar á staðnum. 

Enginn lést í brunanum, en á sjötta tug voru fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Eldurinn kom upp á ellefta tímanum á laugardagskvöldið.
Eldurinn kom upp á ellefta tímanum á laugardagskvöldið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert