Eldurinn blossaði upp aftur

Frá Lærdal.
Frá Lærdal. AFP

Aðalraflínan inn í bæinn Lærdal í Sognfirði í Noregi skemmdist í eldsvoðanum sem þar varð á laugardaginn og margir mánuðir gætu liðið þar til gert verður við hana að fullu. Talsvert fleiri hús eyðilögðust en talið var í fyrstu og eldur blossaði aftur upp snemma í morgun.

Stórbruninn er sá mesti í landinu í um 45 ár. Eldurinn kviknaði í timburhúsi í gærkvöldi en hann breiddist mjög hratt út í nærliggjandi hús, sem voru einnig úr timbri.

Í morgun kom í ljós að aðalraflínan sem liggur inn í bæinn er ónýt og áætlað er að það geti tekið marga mánuði að ljúka viðgerð á henni. Sveitarfélagið hefur beðið flugherinn um að flytja straumbreyti til bæjarins með Hercules-herþotu. Jan Geir Solheim, talsmaður bæjarins, segir í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið, að það liggi á. „Við getum ekki séð öllum bænum fyrir rafmagni eins og staðan er núna,“ segir hann.

Fleiri byggingar skemmdust en talið var

Í gær var talið að 23 byggingar hefðu eyðilagst í eldsvoðanum, en nú hefur komið í ljós að þær voru nokkuð fleiri, eða 35. Þar af eru 17 íbúðarhús, þrír skúrar, útihús, 10-12 byggingar sem voru notaðar sem geymslur og nokkrar aðrar byggingar. Að auki urðu byggingar fyrir skemmdum vegna vatns og reyks, en fjöldi þeirra liggur enn ekki fyrir.

Í gær fengu þeir íbúar bæjarins, sem enn áttu hús til að snúa til, að fara til síns heima. Fyrir marga var það hryggileg heimkoma. Mörgum mætti sterk reykjarlykt og þar sem húsin höfðu verið án rafmagns var sumstaðar um tíu cm svellbunki á gólfum. Þá geta liðið margar vikur þar til hægt verður að hafast við í sumum húsanna vegna minniháttar skemmda.

Af þeim 48 sem lagðir voru inn á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun er sex enn undir eftirliti lækna. 

Kripos rannsakar upptökin

Í gær hóf Kripos, norska rannsóknarlögreglan, rannsókn á upptökum eldsvoðans og fær til þess liðsauka lögreglunnar á staðnum. Um fimmleytið í morgun varð vart við eld á opnu svæði skammt frá slökkvistöð bæjarins, en greiðlega tókst að slökkva hann. Talið er að hann hafi kviknað eftir að glæður fuku, en nokkuð hvasst er á staðnum.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg og bæjarstjórinn í Lærdal Jan Geir …
Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg og bæjarstjórinn í Lærdal Jan Geir Solheim könnuðu aðstæður í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka