Borgarstjóri Toronto í Kanada, Rob Ford, er enn og aftur kominn í fréttirnar. Hann hefur nú játað að hafa drukkið „smávegis“ á sunnudagskvöldið, eftir að myndband náðist af honum drafandi og blótandi. Myndbandið var tekið upp á skyndibitastað en svo sett á YouTube.
Á því sést hvar borgarstjórinn talar stanslaust um lögreglueftirlit og reynir að bera orðin fram með Jamaíka-hreim.
Er hann var spurður út í atvikið á skrifstofu sinni í Torondo viðurkenndi hann að hafa drukkið „smávegis“ aðfaranótt mánudags.
„Ég var með nokkrum vinum, og það sem ég geri í mínu einkalífi og með mínum vinum, það er mitt mál,“ er haft eftir Ford á Sky-sjónvarpsstöðinni.
Hann sagðist ekki telja að hann hefði móðgað neinn með ummælum sínum. „Svona tala ég við vini mína,“ sagði hann.
Ford sagði í nóvember að hann væri hættur að drekka áfengi og hefði upplifað „guðlegt andartak“.
Í síðustu viku harðneitaði hann því að vera byrjaður að drekka aftur, en þá höfðu náðst af honum myndir að skemmta sér á næturklúbbi.
Ítrekað hefur verið ýtt á Ford að segja af sér en það ætlar hann svo sannarlega ekki að gera. Í síðustu viku var það svo staðfest að hann ætlar að bjóða sig fram sem borgarstjóri á næsta kjörtímabili.