Fjármálaráðuneytið í Bandaríkjunum sagði í dag að það yrði uppiskroppa með peninga undir lok febrúarmánaðar ef öldungadeild Bandaríkjaþings hækkar ekki svokallað skuldaþak landsins.
Hörð afstaða Repúblikana gegn hækkun þess olli miklum titringi í Bandaríkjunum í október í fyrra.
Jacob Lew, fjármálaráðherra, hvatti þingið því til að tryggja vissu og stöðugleika í hagkerfinu og á fjármálamörkuðum, með því að hækka skuldaþakið fyrir 7. febrúar næstkomandi, og ekki síðar en undir lok febrúarmánaðar.
Hann sagði ráðuneytið geta gripið til „neyðarúrræða“ ef skuldaþakið væri ekki hækkað fyrir 7. febrúar, en slíkt myndi ekki duga lengur en í eina til tvær vikur.