Einn á forsetavaktinni

Nýr kafli hófst í lífi François Hollande í Élysée höll í dag en í gærkvöldi staðfesti hann sambandsslit sín og  Valérie Trierweiler. Í dag tóku þúsundir þátt í mótmælum í París þar sem afsagnar forsetans var krafist.

Fjöldi mótmælenda er nokkuð á reiki en það eru samtökin Jour de Colére sem standa fyrir mótmælunum. Þau eru samkvæmt frétt Le Monde og fleiri franskra fjölmiðla nátengd hægri flokkunum. Meðal þess sem hópurinn berst gegn er að samkynhneigðum sé heimilt að ganga í hjónaband og skattastefnu stjórnvalda.  Samtökin segja að 100 þúsund manns taki þátt í mótmælunum sem hófust á Bastillutorginu. Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þá tölu, samkvæmt fréttum fjölmiðla og tala fjölmiðlar um að nokkur þúsund hafi tekið þátt.

„Hollande, piparsveinn í Élysée-höll“ eða „Hollande, un célibataire à l'Élysée“ er fyrirsögn á vef Journal du Dimanche en þar segir að með skilnaði Hollande og Trierweiler sé hafinn nýr kafli í lífi forsetans. 

Hollande hefur hins vegar lítið tjáð sig um skilnaðinn annað en að staðfesta það við AFP-fréttastofuna að samband þeirra væri á enda. Við aðra fjölmiðla hefur hann sagt að um einkamál sé að ræða.

Trierweiler flaug í dag til Mumbai á Indlandi þar sem hún kemur fram á vegum franskra mannúðarsamtaka. Samkvæmt upplýsingum AFP frá vinum hennar líður Trierweiler betur og samband hennar og Hollande er ágætt. 

Þrátt fyrir að Frakkar hafi takmarkaðan áhuga á ástarlífi forsetans er fróðlegt að sjá að fréttir um skilnaðinn eru meðal þeirra frétta á frönskum fréttavefjum sem eru mest lesnar þannig að áhuginn virðist vera fyrir hendi hjá einhverjum.

Meðal þess sem forsvarsmenn Dags reiðinnar segja, án þess að nefna nokkur nöfn, er að einhverjir leiðtogar séu of uppteknir við að sinna viðhaldinu að atvinnulausir séu látnir sitja á hakanum.

Roselyne Bachelot, sem var ráðherra í ríkisstjórn Sarkozys, skrifar á Twitter: Valérie hin nýja Díana.

Jean-Marie Le Pen, stofnandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, skrifar: Frábær forseti? Ekki í einkalífinu, fjögur börn fyrir utan hjónaband og hjákona sem er ekki fráskilin og ekki í augum þeirrar sem hann gat ekki verið trúr.

Journal du Dimanche hefur eftir ummælum sem Hollande á að hafa látið falla í vina hópi að konurnar hafi kostað skildinginn.  Vísar hann þar til skilnaðar við  Trierweiler og fyrri sambýliskonu, Ségolène Royal, sem er móður fjögurra barna hans en þau skildu árið 2007, sama ár og samband hans og Trierweiler hófst.

Eftir að Hollande staðfesti skilnaðinn í gær við AFP-fréttastofuna skrifaði Trierweiler á Twitter þakkarorð til starfsfólks í forsetahöllinni, hversu vel þau hefðui reynst henni þann tíma sem hún bjó þar. Hún mun halda íbúðinni sem þau Hollande bjuggu í áður en sú íbúð er í 15. hverfi í París. 

Hollande er annar forseti Frakklands sem skilur við maka sinn er hann gegnir embætti forseta en forveri hans í starfi, Sarkozy, skildi við eiginkonu sína, Cecilia, árið 2007 og kvæntist söngkonunni og fyrrverandi fyrirsætunni Cörlu Bruni í febrúar 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert