George James Tsunis verður að öllum líkindum skipaður nýr sendiherra Bandaríkjanna í Noregi á næstunni. Síðastliðnar vikur hefur hann sætt miklum yfirheyrslum í bandaríska þinginu eins og venjan er þegar sendiherra er skipaður þar í landi. Það hefur hins vegar vakið athygli í yfirheyrslunum að hann er ekkert sérstaklega vel að sér í málefnum Noregs.
Inntur eftir viðbrögðum við því að flokkur með stranga innflytjendastefnu sitji í ríkisstjórn Noregs svarar hann með því að halda því fram að norska ríkisstjórnin sé búin að afneita þeim flokki. Spyrillinn spyr þá hvernig það megi vera að ríkisstjórn afneiti ríkisstjórnarflokki. Tsunis reynir þá að leiðrétta sjálfan sig á ósannfærandi hátt.
í yfirheyrsluni tókst honum einnig að kalla Noreg lýðveldi, sem Norðmönnum finnst nokkuð sérstakt í ljósi þess að ef hann hlýtur skipunina þá verður fyrsta embættisverk hans að hitta konung Noregs.
Fulltrúi bandaríska sendiráðsins í Noregi hefur rætt við ríkisstjórn Noregs vegna málsins. Samkvæmt upplýsingum TV2 viðurkenndu fulltrúar sendiráðsins að uppákoman í yfirheyrslunni hafi verið óþægileg fyrir alla aðila, bæði svör Tsunis og spurningar spyrilsins sem gáfu í skyn að í ríkisstjórn Noregs sitji flokkur sem er fjandsamur í garð innflytjenda.
Tsunis er lögfræðingur og kaupsýslumaður sem auðgaðist meðal annars á hótelrekstri. Hann er mikill stuðningsmaður Baracks Obama og einn af þeim einstaklingum sem styrktu hann hvað mest fjárhagslega í forsetakosningunum árið 2012.
Sjá úrdrátt úr yfirheyrslu Tsunis hér á vef Aftenposten.