Viðvaranir um árás voru hunsaðar

Fórnarlamba árásarinnar í Westgate-verslunarmiðstöðinni minnst.
Fórnarlamba árásarinnar í Westgate-verslunarmiðstöðinni minnst. AFP

Viðvaranir keníska hersins um yfirvofandi árás, aðeins nokkrum dögum áður en hryðjuverkamenn réðust með skothríð inn í Westgate-verslunarmiðstöðina í Naíróbí, voru hunsaðar. Þetta er niðurstaða rannsóknar þingnefndar á árásinni. 67 manns týndu lífi er meðlimir sómalísku Shebab-hryðjuverkasamtakanna létu til skarar skríða.

„Það voru almennar upplýsingar um að hryðjuverkaárásir væru yfirvofandi á allar verslunarmiðstöðvar, sérstaklega í Naíróbí,“ segir m.a. í skýrslu nefndarinnar en fjallað er um málið í dagblaðinu Sunday Nation í dag. 

Viðvaranirnar voru gerðar í ágúst og aftur 19 dögum fyrir árásina á Westgate 21. september.

Í annarri öryggisskýrslu, sem gefin var út um ári fyrir árásina, var sérstaklega tekið fram að Shebab-hópurinn væri að skipuleggja árás og væri sjónum beint að byggingum í eigu Ísraela.

„Á kynningu um öryggismál í febrúar árið 2013 var varað við árásum eins og þeirri sem átti sér stað í Mumbaí seint á árinu 2008, þar sem ráðist var inn í byggingu með byssum og handsprengjum og fólk tekið í gíslingu,“ segir ennfremur í skýrslu þingnefndarinnar að sögn dagblaðsins. „Ekki er ljóst til hvaða aðgerða var gripið til að koma í veg fyrir árásir.“

Shebab-hópurinn sagði árásina á Westgate gerða til að þrýsta á Kenía að kalla hermenn sína til baka frá Sómalíu. 

Í skýrslunni er einnig gagnrýnt hvernig ýmsar öryggissveitir, m.a. lögreglan, herinn og sérsveitir, beittu sér í umsátrinu sem stóð í fjóra daga. Er m.a. gagnrýnt að samvinnu þessara aðila hafi verið ábótavant.

Skýrslan verður kynnt í keníska þinginu er það kemur saman aftur í næsta mánuði.

Talið er að árásarmennirnir í Westgate hafi verið fjórir, en í fyrstu var talið að þeir væru mun fleiri. Þeir eru allir taldir hafa látist í aðgerðunum sem fylgdu í kjölfarið.

Vopnaður maður gengur um ganga Westgate á meðan umsátrinu stóð.
Vopnaður maður gengur um ganga Westgate á meðan umsátrinu stóð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert