Lögreglan mun ekkert aðhafast í kjölfar þess að sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson játaði að hafa neytt fíkniefna. Þetta segir talsmaður Lundúnalögreglunnar, Scotland Yard.
Nigella játaði að hafa neytt fíkniefna er hún bar vitni í máli sínu og fyrrverandi eiginmannsins gegn tveimur aðstoðarkonum þeirra. Hún sagðist hafa tekið kókaín er eiginmaður hennar, John Diamond, hafði greinst með ólæknandi krabbamein. Hann lést skömmu síðar. Þá sagðist hún einnig hafa tekið fíkniefni árið 2010 er hún hafði orðið fyrir miklu áreiti af hálfu síðari eiginmannsins, Charles Satchi.
Lundúnalögreglan segir samkvæmt frétt Sky-fréttastofunnar, að hún hafi rannsakað þau sönnunargögn sem væru fyrirliggjandi í málinu og hafi í kjölfarið ákveðið að aðhafast ekkert frekar.