Valerie Trierweiler, fyrrverandi forsetafrú Frakka, brosti sínu blíðasta til fjölmiðlamanna er hún heimsótti veik börn á Indlandi í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem hún sést opinberlega frá því að upp komst um framhjáhald sambýlismannsins fyrrverandi, François Hollande forseta.
Trierweiler virtist afslöppuð en neitaði að tala um einkalíf sitt við fjölmiðlamenn sem biðu hennar við barnasjúkrahús í fátæktarhverfi í Mumbaí.
Hún sagðist aðeins vilja ræða um góðgerðarsamtökin Action Against Hunger, sem skipulögðu tveggja daga heimsókn hennar til Indlands.
Trierweiler flaug frá París síðdegis ígær og mun í kvöld halda blaðamannafund á hótelinu Taj þar sem fram fer kvöldverður til að safna peningum fyrir fátæk og veik börn á Indlandi.