Breski leikarinn Jude Law bar í dag vitni í símahlerunarmálinu gegn stjórnendum götublaðsins News of the World. Sagði hann m.a. að svo virtist sem fjölmiðlar hefðu á sínum tíma búið yfir grunsamlega ítarlegum upplýsingum um hagi hans og ferðir.
Stjórnendur News of the World eru sakaðir um að hafa staðið fyrir hlerunum á símtölum fjölda einstaklinga á árunum 2000-2006 en Law sagði m.a. í framburði sínum að hann hefði orðið fyrir stöðugum ágangi fjölmiðla í kjölfar þess að hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna 2001, fyrir frammistöðu sína í The Talented Mr Ripley, og milli 2005 og 2006, þegar hann átti í ástarsambandi við leikkonuna Siennu Miller.
„Svo virtist sem fólk, eða einhver, byggi yfir óheilbrigðu magni upplýsinga, sem þýddi að hann hafði aðgang að lífi mínu og staðsetningu,“ sagði Law. Hann sagðist hafa verið hundeltur af fjölda ljósmyndara, sem virtust alltaf vita hvar hann yrði.
„Ég varð meðvitaður um það að ég var að mæta á staði, eftir að hafa komið því í kring að fara þangað í leyni, og fjölmiðlar voru þar fyrir,“ sagði hann.
Lögmaður ritstjórans Andy Coulson spurði Law m.a. um frétt þess efnis að Miller hefði haldið fram hjá honum með James Bond-leikaranum Daniel Craig. Þá spurði hann Law hvort hann vissi að náinn fjölskyldumeðlimur hefði lekið upplýsingum til News of the World árið 2005.
„Ég fékk vitneskju um það síðar - í kringum 2011, kannski seinna - að News of the World hefði verið í sambandi við fólk í fjölskyldunni, reynt að komast að einhverju, beðið um tilvitnanir,“ svaraði leikarinn. Hann kannaðist ekki við að hafa vitað að viðkomandi fjölskyldumeðlimur hefði fengið greitt fyrir upplýsingar um sig.
Law viðurkenndi að hafa hringt í Craig eftir að hann heyrði orðróm um meint hliðarspor Miller en sagðist ekki muna hvort það var áður eða eftir að News of the World birti fréttina. Þá sagðist hann ekki hafa skilið eftir skilaboð til Craig.
Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch, eigandi News of the World, lagði blaðið niður 2011, eftir að símahlerunarmálið komst upp.