„Megið ráða hvaða titil ég ber“

Fyrrverandi sambýliskona Frakklandsforseta François Hollande hélt blaðamannafund á Taj hótelinu í Mumbaí á Indlandi í dag. Hún sagði það mikinn heiður fyrir sig að vera komin til landsins og vinna þar að mannúðarmálum. Einnig sagði hún að ekkert hefði getað orðið til þess að hún missti af ferðinni.

„Þetta er mikill heiður fyrir mig og í þriðja skiptið sem ég sæki landið heim. Í fyrsta skiptið var ég starfandi blaðamaður, í annað skiptið var ég forsetafrú og þið megið ráða hvaða titil ég ber í dag,“ sagði Trierweiler. „Þessi ferð var skipulögð fyrir hálfu ári síðan og hugmyndin kom upp fyrir einu áru. Ég hefði ekki viljað missa af fyrir neitt. Ég er hér og mjög ánægð með það.“

Þetta er fyrsta opinbera ferðalag Trierweiler síðan upp komst um framhjáhald Hollande og hefur hún dvalist á sjúkrahúsi að undanförnu vegna ofþreytu og of lágs blóðþrýstings. Hún virðist þó hafa náð sér vel ef marka má blaðamannafundinn í dag. 

Trierweiler er í Indlandi á vegum góðgerðarsamtakanna Action Against Hunger. Í kvöld fer fram kvöldverður til að safna peningum fyrir fátæk og veik börn á Indlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert