Ósáttir við vinnubrögð í Lærdal

Frá bænum Lærdal eftir eldsvoðann.
Frá bænum Lærdal eftir eldsvoðann. AFP

Íbúar í bænum Lærdal í Sognfirði í Noregi, þar sem mikill eldsvoði kom upp um þarsíðustu helgi, segja lögreglu hafa gengið of hart fram við að láta íbúa yfirgefa hús sín og vísa þeim af svæðinu. Þeir segja að ef þeir hefðu fengið að vera þar áfram hefðu þeir getað komið í veg fyrir bruna margra húsa.

Eldur kom upp í timburhúsi í bænum á ellefta tímanum laugardagskvöldið 18. janúar. Allnokkur vindur var og eldurinn breiddist hratt út í nærliggjandi hús sem einnig voru úr timbri. Alls eyðilögðust 35 byggingar, þar af 171 íbúðarhús. Að auki skemmdust fjölmargar byggingar vegna reyks og vatns.

Ingebrigt Wangensteen Gjerde er einn þeirra sem misstu hús sitt og allar eigur í brunanum. Hann er ósáttur við framgöngu lögreglu. „Þeir þvinguðu fólk í burtu, sem var þarna með vatnsslöngur og reyndi að bjarga sínum eigin húsum,“ segir Gjerde í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið.

Hann segir fjölskyldu sína hafa náð að slökkva eld sem logaði umhverfis hús dóttur hans og þannig hafa hindrað að eldurinn breiddist enn meira út.

Bjargaði menningarmiðstöðinni

Roy Trulssen er íbúi í Lærdal og sá þegar eldurinn læsti sig í menningarmiðstöð bæjarins sem var í miðbænum. Hann segist hafa ætlað að láta vita af því, en lögreglumaður hafi meinað honum að gera það því miðbærinn hefði verið rýmdur. „Ég sagði þá að það væri ekki verjandi að láta 50 milljóna byggingu brenna niður þegar hægt væri að koma í veg fyrir það á einni mínútu,“ segir Trulssen. Í samtali við NRK segir hann að lögreglumaðurinn hafi síðan farið á brott, sjálfur hafi hann kallað saman mannskap og þeim hafi tekist að slökkva eldinn í menningarmiðstöðinni.

Óhlýðnaðist lögreglu og faldi sig

Annar íbúi í bænum, Olaf Fossen, óhlýðnaðist tilmælum um að yfirgefa svæðið og faldi sig fyrir lögreglu ásamt tengdasyni sínum. Þeir slökktu síðan í sameiningu eldinn í húsi sínu. 

Åge Løseth, talsmaður bæjarstjórnarinnar í Lærdal, segist standa fast við þá ákvörðun að rýma svæðið. „Ég skil vel hvað fólk á við, en ég held að við ættum að spyrja á hinn veginn: Hvað hefði gerst ef húsin hefðu ekki verið rýmd í þeirri ringulreið sem hér var og ef einhver hefði látist,“ segir Løseth í samtali við NRK. „Við slíkar aðstæður setur lögregla í forgang að bjarga mannslífum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka