Valerie Trierweiler, fyrrverandi sambýliskona François Hollandes, forseta Frakklands, er komin til Indlands. Þetta er í fyrsta skipti sem Trierweiler kemur opinberlega fram eftir að tímaritið Closer fjallaði um samband forsetans við leikkonuna Julie Gayet.
Trierweiler kom til indversku borgarinnar Mumbai rétt eftir miðnætti í nótt. Ferðalag hennar mun standa í tvo daga. Trierweiler ræddi ekki við fréttamenn þegar hún lenti. Ljósmyndarar flykktust að henni þegar hún gekk yfir í bíl sem beið eftir henni á flugvellinum.
Trierweiler mun meðal annars heimsækja sjúkrahús í Mumbai í dag. Þá mun hún einnig snæða hádegisverð ásamt eiginkonum nokkurra helstu kaupsýslumanna landsins og taka þátt í gala-kvöldverði í kvöld á lúxushótelinu Taj Mahal þar sem hún dvelur. Gert er ráð fyrir blaðamannafundi í dag í tengslum við ferð hennar en þó er óvíst hvort hún ræðir sjálf við fjölmiðla.