139 byggingar hafa brunnið

Frá brunanum í Hasvåg í morgun.
Frá brunanum í Hasvåg í morgun. AFP

139 byggingar hafa brunnið í skógar- og kjarreldum sem nú loga í bæjunum Hasvåg og Småvære í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi. Ekki er vitað um slys á fólki og aðstæður til slökkvistarfs eru erfiðar, þarna er afar hvasst og óttast er að eldurinn eigi eftir að breiðast út frekar. Um 100 byggingar eru í hættu, að mati slökkviliðs.

Að bænum Hasvåg liggur einungis einn vegur, en ekki er talið óhætt að fara um hann vegna eldanna og torveldar það slökkvistarfið talsvert.

Trude Skogen, hjá lögreglunni í Norður-Þrændalögum, staðfesti í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið , að 139 byggingar hefðu orðið eldinum að bráð. 32 eiga lögheimili á þessum slóðum og hafa þeir allir verið fluttir burt af svæðinu. Skip norsku strandgæslunnar, KV Bergen, er nú á leið til Flatanger og búist er við að það verði komið á leiðarenda í kvöld. Skipið er búið öflugum vatnsdælum og getur einnig flutt bæði fólk og búnað.

Tilkynning barst um eldinn um klukkan 22.30 í gærkvöldi og hafa tugir manna þurft að yfirgefa heimili sín.

Frétt mbl.is: Eldar í Þrændalögum í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka