Allar byggingar og mannvirki í bænum Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi eru nú brunnin, en skógar- og kjarreldar hafa logað á þessum slóðum síðan í gærkvöldi. Slökkviliði gengur illa að ráða við eldinn og vegna hvassviðris hefur ekki verið hægt að nýta þyrlur sem skyldi við slökkvistörf. Ekki er vitað um nein slys á fólki vegna eldsins.
Á annað hundrað hús hafa nú brunnið og tugir til viðbótar eru í hættu.
Fjórar þyrlur eru í viðbragðsstöðu á svæðinu, þess albúnar að varpa vatni yfir eldinn og þeirrar fimmtu er beðið. Aðeins einni þeirra hefur tekist að komast á loft vegna veðursins.
Hans Petter Haukø, slökkviliðsmaður í Hasvåg, segir í samtali við norska dagblaðið Trønder-Avisa að allt sé nú brunnið sem brunnið geti í bænum. „Allt hefur jafnast við jörðu í Hasvåg,“ segir hann.
Upptök eldsins eru talin hafa verið á svæði sem heitir Uran og að hann hafi kviknað eftir að línur í háspennumastri slógust saman í miklu hvassviðri. Þaðan barst eldurinn áfram í smábæi í nágrenninu, en á þessum slóðum er talsvert af sumar- og frístundahúsum.
Skammt er liðið frá öðrum stórbruna í Noregi, en miklar skemmdir urðu þegar eldur kom upp í bænum Lærdal í Sognfirði um næstsíðustu helgi.
Frétt mbl.is: Kviknaði í út frá raflínu