Tugir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi vegna elda sem kviknuðu í lyngi í gærkvöldi og hafa breiðst hratt út.
Afar hvasst er á þessum slóðum og torveldar það mjög störf slökkviliðsmanna sem ekki hafa getað notað nema eina þyrlu af þeim fjórum sem þeir hafa til umráða við slökkvistörf sökum vinda. Fjölmennt lið þeirra er nú að störfum og kölluð hefur verið út aðstoð úr nágrannabyggðarlögum. Allt er reynt til að koma í veg fyrir að eldurinn breiðist frekar út, en þegar hafa 50-70 byggingar í bæjunum Hasvåg og Småvære í sveitarfélaginu brunnið, samkvæmt frétt adressa.no.
Um átta leytið í gærkvöldi blossaði upp eldur í skóg- og kjarrlendi í Snillfjord, sem einnig er í Suður-Þrændalögum. Hann var slökktur snemma í morgun og samkvæmt frétt NRK, norska ríkissjónvarpsins, urðu engin slys á fólki eða skemmdir á íbúðarhúsum.