Færri hús brunnu en talið var

Hús í ljósum logum í bænum Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger …
Hús í ljósum logum í bænum Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi. EPA

Óttast var að um 140 hús hefðu brunnið í eldsvoðanum í bæjunum Småvær og Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi, en þar hafa eldar logað síðan í gærkvöldi. En nú lítur út fyrir að bjarga megi um 50 þeirra frá eyðileggingu.

Þetta kemur fram á vef NRK - norska ríkissjónvarpsins. Þar segir ennfremur að ástandið í Hasvåg, sem hefur orðið einna verst úti, sé ekki jafn slæmt og óttast var og hugsanlega megi bjarga þar einhverjum byggingum. Á þessu svæði er mikið um sumar- og frístundahús, en lítið um fasta búsetu. Þeim rúmlega 30 íbúum sem hafast þarna við allt árið hefur verið komið á öruggan stað og engar fregnir hafa borist af slysum á fólki.

Tugir slökkviliðsmanna eru nú að störfum, afar erfitt er að ráða við eldinn þar sem gróður er þarna þurr og talsvert hvassviðri. 

Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, er nú staddur í Flatanger. Hann lýsir ástandinu sem „sorglegu“. „Ég er kominn hingað til að fylgjast með því hvernig unnið er úr málum, en það sem skiptir mestu máli er að sýna þeim, sem þetta snertir mest, samlíðan,“ sagði Anundsen í samtali við norska ríkissjónvarpið. „Margir hafa misst allt sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert