Braust inn í síma Bond-stjörnunnar

Daniel Craig.
Daniel Craig. AFP

Fyrrverandi blaðamaður á götublaðinu News of the World sagði frá því í vitnastúkunni í dag hvernig hann braust inn í síma og komst að ástarsambandi milli leikaranna Daniels Craigs og Siennu Miller. Enn einn angi hlerunarmálsins umfangsmikla, sem staðið hefur í mörg ár, er nú til meðferðar við dómstól í London.

Blaðamaðurinn Dan Evans hefur játað að hafa brotist inn í síma og hann sagði í dag að ritstjóri blaðsins, Andy Coulson, hefði vitað af því og ráðlagt sér að fela slóð sína.

Evans sagði dómnum frá því að hann hefði verið keyptur frá Sunday Mirror og yfir á News of the World árið 2004. Það hefði fyrst og fremst verið vegna hæfileika hans til að brjótast inn í síma og hlera þá. 

Evans lýsti því svo í dag hvernig hann braust inn í talhólf á síma Daniels Craigs. Þar hefði hann m.a. heyrt eftirfarandi skilaboð: „Hæ, þetta er ég. Get ekki talað. Ég er í Grouchoklúbbnum með Jude.“

Blaðamaðurinn kannaði svo hver átti skilaboðin og komst að því að það var Miller. Hún var þá í sambandi með leikaranum Jude Law. Hann hefði síðan skrifað frétt byggða á þessum skilaboðum og öðrum heimildum. Hann sýndi ritstjóranum fréttina sem sagði honum að taka afrit af talskilaboðunum, setja þau í umslag og fara með þau niður í afgreiðslu dagblaðsins. Þannig liti það út eins og einhver ónafngreindur hefði komið upplýsingunum til þeirra.

Síðan var annar blaðamaður látinn sækja umslagið og þykjast hissa. 

Evans bar fréttina undir Craig en hann neitaði að staðfesta hana. Því var beðið með birtingu fréttarinnar í heila viku. Fréttin var svo birt í október árið 2005 en þá hafði talsmaður Judes Laws staðfest hana.

Hlerunum dagblaðsins var hætt í ágúst árið 2006 er tveir blaðamenn voru handteknir.

„Ég reyndi að losa mig við öll sönnunargögn sem ég hafði,“ rifjaði Evans upp í dag. Evans var gripinn er hann notaði eigin farsíma til að brjótast inn í talhólf stjúpmóður Miller.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert