Útgáfuhóf, sem halda átti í gær af tilefni af útkomu bókar pakistönsku stúlkunnar Malölu Yousafzai í Peshawar háskólanum í heimalandi hennar, var aflýst vegna þrýstings frá héraðsstjórn svæði og vegna þess að lögregla neitaði að gæta öryggis á staðnum.
Malala var skotin í höfuðið af hópi talibana í Swat-dalnum í Pakistan, þar sem hún er búsett, í október 2012. Þá var hún 15 ára og hafði um skeið skrifað greinar á vef BBC þar sem hún lýsti aðstæðum sínum, m.a. takmörkunum á menntun stúlkna. Atburðurinn vakti heimsathygli og Malala var flutt til Bretlands til lækninga og hefur náð sér að fullu. Síðan þá hefur hún m.a. verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels, ávarpað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og verið heiðruð víða.
Bók hennar, Ég er Malala, kom út í fyrra og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.
Ekki stóð til að Malala yrði í útgáfuhófinu, en talsmaður Peshawar háskólans segir í samtali við AFP-fréttastofuna að skólinn hafi neyðst til að aflýsa viðburðinum. „Við vorum undir miklum þrýstingi frá ráðamönnum í héraðinu og í háskólanum,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. „Þegar við neituðum að aflýsa viðburðinum, þá neitað lögregla að gæta öryggis á staðnum.“
Shah Farman, ráðherra upplýsingamála í Peshawar héraði staðfestir þetta. „Það er rétt að við komum í veg fyrir þennan viðburð og það eru margar ástæður fyrir því,“ segir hann. „Tilgangurinn með þessum viðburði var eingöngu að sníkja fé frá Bandaríkjunum.“