Hús hafa verið rýmd vegna sinuelda í eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum í Noregi og á milli 150 og 200 manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Tilkynnt var um eldinn skömmu fyrir hádegi í dag og hefur hann breiðst hratt út.
Ekki er þó talin hætta á að eldurinn berist í hús, heldur var fólki gert að yfirgefa hús sín vegna reyks.
Allt tiltækt slökkvilið hefur verið kallað út og eru þrjár þyrlur einnig á staðnum sem varpa vatni á eldana, en þær voru sendar beint frá Flatanger í Norður-Þrændalögum, þar sem eldur kom upp á mánudagskvöldið.
Þetta er í þriðja skiptið á stuttum tíma sem eldur kemur upp í Noregi. Fyrir utan brunann í Flatanger þar sem um 90 hús eyðilögðust, þá kom upp eldur í bænum Lærdal 18. janúar þar sem tugir húsa brunnu til grunna.