Hafa náð tökum á eldinum

Hús stóðu í ljósum logum í bænum Hasvåg í gær.
Hús stóðu í ljósum logum í bænum Hasvåg í gær. EPA

Enn logar eldur á tveimur stöðum í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi, en þar hafa eldar logað síðan á mánudagskvöldið.  Slökkvilið náði tökum á eldinum í gærkvöldi og ekki er búist við að frekari útbreiðslu hans. Um 100 manna lið slökkviliðsmanna var að störfum í nótt.

Talið er að eldurinn hafi kviknað við neistaflug sem varð þegar línur í háspennumastri slógust saman í miklu hvassviðri. Þaðan barst eldurinn í kjarr og skóga og í byggingar og mannvirki í nágrenninu, en á þessum slóðum er talsvert af sumar- og frístundahúsum.

Eldurinn slökktur úr öllum áttum

Mikið hvassviðri og þurrkar ollu því að eldurinn breiddist hratt út og slökkviliði gekk illa að ráða við eldinn vegna aðstæðna. Þá var ekki hægt að senda þyrlur á loft til slökkvistarfa sökum veðurs. Nú hefur lægt nokkuð og nú er ein þyrla við að varpa vatni á eldinn og til stendur að senda fleiri á loft. Fengist er við slökkvistörf úr lofti, á láði og á legi því tvö skip norsku strandgæslunnar eru skammt undan með öflugar vatnsdælur um borð.

Vonast er til að takast megi að slökkva eldinn að fullu síðar í dag.

Um 90 hús eyðilögð

Eldurinn náði yfir um 15 ferkílómetra svæði þegar mest lét. Um 90 hús eru gjöreyðilögð í bæjunum Hasvåg og Småværet og ljóst er að margir hafa misst heimili sín, fyrirtæki og sumarhús. 

Þrír slökkviliðsmenn voru fluttir á sjúkrahús í morgun vegna gruns um reykeitrun, en ekki er vitað um nein önnur slys eða meiðsli á fólki vegna eldanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert