Slökkvistarf gengur ágætlega í Norður-Þrændalögum en þar hefur lægt og eru þyrlur og flugvélar meðal annars notaðar við slökkvistarfið.
Talið er að um 90 byggingar hefðu brunnið í bæjunum Hasvåg og Småvære í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi en eldurinn kom upp seint á mánudagskvöldið.
Í bæjunum voru alls 139 byggingar og í fyrstu var talið að þær hefðu allar eyðilagst en síðustu fregnir hermdu í gær að útlit væri fyrir að hægt yrði að bjarga 50 þeirra, að því er fram kom á vef NRK, norska ríkisútvarpsins. Þar sagði ennfremur að ástandið í Hasvåg væri ekki jafn slæmt og óttast var og hugsanlega mætti bjarga þar einhverjum byggingum. Á þessu svæði er mikið um sumar- og frístundahús, en lítið um fasta búsetu. Þeim rúmlega 30 íbúum sem hafast þarna við allt árið hefur verið komið á öruggan stað og engar fregnir hafa borist af slysum á fólki, að sögn NRK.
Upptök eldanna eru talin vera neistar frá raflínum sem slógust saman í rokinu, að því er fram kom í tilkynningu frá sveitarstjórn Flatanger.
VG hefur eftir lögreglunni í morgun að einungis séu smáeldar enn logandi. Fjórar þyrlur taka þátt í slökkvistarfinu en í nótt blossaði upp eldur á ný við Uransvannet. Tekist hefur að slökkva þann eld en þar er gott aðgengi að vatni. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði voru boruð göt á ísinn á vatninu og vatn tekið þaðan til að nota við slökkvistarfið.