„Það logar í öllu“

Þuríður tók mynd af reyknum sem lagði af eldinum í …
Þuríður tók mynd af reyknum sem lagði af eldinum í morgun. Þuríður Bragadóttir

„Ég horfi hérna út um gluggann á þyrlurnar sækja sjó niðri í fjöru. Þær fljúga yfir eldinn og koma strax aftur til að sækja meiri sjó,“ segir Þuríður Bragadóttir, íbúi á eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum í Noregi. Þar brenna nú sinueldar og hefur á fimmta hundrað íbúum eyjarinnar verið gert að yfirgefa hús sín.

Þuríður býr í hverfi sem heitir Sistranda og íbúar þar hafa ekki þurft að fara út húsum sínum, því eldurinn er á hinum hluta eyjarinnar. „Ég finn enga reykjarlykt því vindáttin er frá mér. Eldurinn er fyrst og fremst í hverfi sem heitir Klubben. Ég fór þangað áðan og sá reykinn, það logar í öllu, grenitré og gras fuðra upp og þarna er mikill vindur. Þetta er farið að ná yfir stórt svæði.“

14-15 sinueldar að undanförnu

Eldurinn kom upp um klukkan 11 í morgun. Fyrst var ekki talin hætta á að hann myndi berast í hús, en með breyttri vindátt er nú talin töluverð hætta á því.  Allt tiltækt slökkvilið er nú að störfum á Frøya, þar eru líka fimm þyrlur sem varpa sjó yfir eldinn. Á eyjunni búa um 5.000 manns, að sögn Þuríðar sem sjálf hefur verið búsett þar í eitt og hálft ár ásamt fjölskyldu sinni.

Undanfarið hafa sinubrunar verið tíðir í Þrændalögum. Þuríður segist hafa fengið spurnir af 14-15 slíkum og lítið hafi verið gefið upp um ástæður þeirra. „En hérna er afskaplega þurrt, hér hefur ekki snjóað eða rignt í allan vetur. Jörðin er skraufþurr.“

Í gær kviknuðu eldar í gróðri í Flatanger í Norður-Þrændalögum. Talsvert tjón hlaust af og skemmdust a.m.k. 90 hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert