Allt kapp lagt á að slökkva eldana

Allt kapp er lagt á að slökkva sinuelda sem loga á eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum í Noregi en sex þyrlur taka þátt í slökkvistarfinu. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu skipta þær miklu máli við slökkvistarfið enda afkastageta þeirra mikil.

Andreas Kvingedal, slökkviliðsstjóri, segir í samtali við norska ríkisútvarpið, NRK, að reynt hafi verið að hefta útbreiðslu eldanna í nótt en ómögulegt sé að segja til um framhaldið. Hins vegar ógni þeir ekki byggð eins og staðan er nú.

Á fimmta hundrað íbúar í 180 húsum á eyjunni flúðu heimili sín í gær vegna sinuelda sem kviknuðu í gærmorgun.

Kvingedal segir aðstæður mjög erfiðar, það sé kalt og hvasst. Heldur hefur dregið úr eldinum undir morgun að sögn lögreglu og eins og staðan er núna loga þeir frá Åredalsvatnet að Langvatnet,  og frá Mjøravatnet, í kringum Ørnberget og niður að Størhestvatnet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert