Nýir eldar kvikna á Frøya

Þyrla varpar sjó á eldana á Frøya.
Þyrla varpar sjó á eldana á Frøya. AFP

Tekist hefur að slökkva hluta sinueldsins á eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum í Noregi, en í morgun kviknaði nýr eldur skammt frá og er nú allt kapp lagt á að slökkva hann áður en hann breiðist út.

Tilkynnt var um eldinn í gærmorgun og var á fimmta hundrað íbúum í 180 húsum gert að yfirgefa heimili sín. Engar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum eða húsum og ekki er vitað um slys á fólki.

Tugir slökkviliðsmanna eru að störfum og njóta fulltingis sex þyrlna sem varpa sjó á eldana. Fréttamaður norska ríkissjónvarpsins sem er á staðnum segir að nokkuð sé farið að draga af slökkviliðsmönnum, enda hafi þeir verið að störfum síðan í gærmorgun. Sumir þeirra voru einnig við störf í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum þar sem eldur kom upp á mánudagskvöldið með þeim afleiðingum að a.m.k. 90 hús brunnu til grunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert