Norska veðurstofan hefur lýst yfir varúðarástandi í sjö fylkjum á vesturströnd Noregs. Ástæðan er afar þurrt graslendi og gróður, en ekki hefur rignt á þessum slóðum í óvenju langan tíma og talað er um að þetta séu mestu þurrkar í landinu í meira en 100 ár.
Í þessu felst m.a. að bannað er að kveikja opna elda á svæðinu. Búist er við rigningu á hluta svæðisins á næstunni.
Enn loga sinueldar á eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum. Um 700 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín þar í gær og í morgun. Slökkviliði hefur ekki tekist að ná tökum á eldinum, sem hefur logað síðan í gærmorgun og tilkynnt var um nýja elda í morgun.