Fengu að snúa aftur í hús sín

Þyrla við slökkvistörf á Frøya í gær.
Þyrla við slökkvistörf á Frøya í gær. AFP

Þeir íbúar á eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum í Noregi sem þurftu að yfirgefa heimili sín vegna sinuelda á eyjunni, hafa fengið að snúa aftur í hús sín. Slökkvilið hefur náð tökum á eldinum en talið er að hann verði að fullu slökktur eftir nokkra daga.

Nokkrar þyrlur norska hersins eru þarna við slökkvistörf, þær sækja sjó í skjólur sem hanga niður úr þeim og varpa síðan sjónum á eldinn. Upptök eldsins liggja ekki fyrir, en í samtali við NRK segir Inge Dahlø, sýslumaður í Frøya orðróm um að skólabörn á ferðalagi eigi þar hlut að máli ekki hafa verið sannaðan, en vangaveltur hafa verið uppi á ýmsum samskiptamiðlum um að börnin hafi kveikt eldinn.

Tilkynnt var um eldinn á Frøya um hádegisbilið í fyrradag. Fljótlega var á fimmta hundruð manns gert að yfirgefa hús sín. Engin hús brunnu og ekki er vitað um slys á fólki.

Búist er við að slökkvistarf muni taka nokkra daga til viðbótar, en ekki er talið að eldurinn muni blossa upp að nýju.

Þetta er í þriðja skiptið á stuttum tíma sem eldur kemur upp í Noregi. Eldar kviknuðu í gróðri í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum á mánudaginn, þar sem um 90 hús eyðilögðust. Þá kom upp eldur í bænum Lærdal 18. janúar þar sem tugir húsa brunnu til grunna. Engin slys urðu á fólki í þessum brunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka