Karlmaður, sem að eigin sögn var á reki um Kyrrahafið í 16 mánuði, fannst á eyjunni Ebon, einni af Marshall-eyjum, síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn talar aðeins spænsku og segist heita José Ivan. Tveir heimamenn fundu hann á litlum plastbát þar sem bátnum hafði skolað upp á rif við eyjuna.
Haft er eftir norska mannfræðinemanum Ola Fjeldstad, sem hefur verið við rannsóknir á eyjunni, í frétt AFP að maðurinn hefði sítt hár og mikið skegg. Hann hafi verið í slæmu ásigkomulagi en væri að ná sér. Einu fötin sem hann hafi verið í þegar hann fannst hafi verið slitnar nærbuxur. Hann hafi að eigin sögn lagt af stað á bátnum frá heimalandi sínu Mexíkó í september 2012 með félaga sínum og ætlað til nágrannaríkisins El Salvador. Félagi hans hafi hins vegar látist í hafi.
„Báturinn er virkilega illa farinn og lítur út fyrir að hafa verið á floti lengi,“ segir Fjeldstad. Hann telji að maðurinn hafi líklega lifað af með því að veiða fisk og skjaldbökur með berum höndum þar sem enginn veiðibúnaður hafi verið um borð í bátnum. Farið var með manninn á aðra eyju þar sem síma er að finna og haft samband við utanríkisráðuneyti Marshall-eyja. Næsta skref verður að koma manninum aftur til síns heima.