Verðmæti eigna í dánarbúi Nelsons Mandela nemur 4,1 milljón bandaríkjadala eða um 480 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá frelsishetjunnar fá eiginkonan, Graca Machel, aðrir fjölskyldumeðlimir, starfsfólk, skólar og Afríska þjóðarráðið hlut af búinu.
Erfðaskrá Mandela var gerð opinber í dag en tveir mánuðir eru frá því að hann lést, 95 ára að aldri. Eiginkonan á rétt á um helmingi búsins en hefur þann möguleika að velja aðeins ákveðnar eignir. Höfundarréttargjöld vegna bóka hans, hús hans í Jóhannesarborg, í Qunu og Mthatha fara til sjóðs í eigu fjölskyldunnar.
Hús hans í Houghton í Jóhannesarborg, þar sem Mandela lést, fer til fjölskyldu sonar hans heitins, Makgathos.
„Það er ósk mín að það muni þjóna hlutverki samkomustaðar Mandela-fjölskyldunnar til að sameina hana, löngu eftir dauða minn,“ sagði Mandela m.a. um þetta atriði í erfðaskrá sinni.
Börn Mandela fengu hvert um sig 300 þúsund dollara lán hjá honum á meðan hann lifði. Þessar skuldir verða þurrkaðar út sé ekki þegar búið að greiða þær að fullu, samkvæmt erfðaskránni.
Þá fær starfsfólk Mandela um 4.500 dali hvert, m.a. aðstoðarkona hans til margra ára, Zelda la Grange.
Þá fá skólar og stjórnmálasamtökin Afríska þjóðarráðið, sem Mandela leiddi til sigurs árið 1994, einnig peninga úr búinu.
Efðaskráin var fyrst gerð árið 2004. Henni var svo breytt árið 2008.