Bandaríski leikarinn Philip Seymour Hoffman lést í gær 46 ára að aldri en hann fannst meðvitundarlaus í íbúð sinni með sprautunál í handleggnum. Eins fundust pakkningar með eiturlyfjum í íbúðinni og er talið að um heróín sé að ræða. Áratuga langri baráttu við eiturlyfjafíkn er lokið með dauða.
Fjallað er um andlát Hoffman í helstu fjölmiðlum heims í gær enda einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar.
Á vef Wall Street Journal kemur fram að bæði nálar og pakkningar með eiturlyfjum hafi fundist í íbúð hans við Bethune Street á Manhattan. Það var handritshöfundurinn David Bar Katz sem kom að honum meðvitundarlausum á baðherbergisgólfi íbúarinnar um klukkan 11:15 fyrir hádegi að staðartíma, 16:15 að íslenskum tíma.
Það var Kats sem hringdi í neyðarlínuna og var Hoffman úrskurðaður látinn á staðnum. „Hann var með nál í handleggnum,“ hefur WSJ eftir lögreglumanni sem kom á staðinn.
Síðast sást til Hoffmans umklukkan 8 á laugardagskvöldið að sögn lögreglu. Hann átti að sækja börn sín þrjú, tvær dætur og son, til barnsmóður sinnar Mimi O'Donnell á sunnudagsmorgninum og þegar hann kom ekki fóru Katz og annar vinur þeirra til þess að kanna með hann.
Lögreglan í New York rannsakar nú andlát leikarans og eins hvað dró hann til dauða. Hann verður krufinn í dag. Umslögin tvö með fíkniefnunum sem fundust skammt frá líki leikarans voru ekki eins merkt, annað var með spaðaás en hitt með hjartaás.
Verður innihald umslaganna rannsakað með tilliti til hvort efnin hafi verið blönduð eitri.
Hoffman hlaut Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í Truman Cappote árið 2005 auk þess sem hann hlaut margvíslegar viðurkenningar á ferlinum en hann lék bæði á sviði og í kvikmyndum og eins tók hann að sér leikstjórn með góðum árangri.
Árið 1997 lék hann með eftirminnilegum hætti í Boogie Nights og fylgdi myndinni eftir með leik í myndum eins og The Big Lebowski árið 1998 og Magnolia árið 1999.
Nýverið vann hann að tveimur síðari myndunum í þríleiknum um Hungurleikana sem á að frumsýna í nóvember 2014 og 2015. Hoffman hafði lokið sínu hlutverki að mestu í myndunum, samkvæmt frétt WSJ.
Leikarinn hefur ekki farið leynt með eiturlyfjafíkn sína í gegnum tíðina. Hann fór í fyrsta skipti í meðferð við áfengis- og eiturlyfjafíkn þegar hann var 22 ára gamall og viðurkenndi að líf hans hafi á þeim tíma einungis snúist um að útvega sér næsta skammt.
Hoffman lætur eftir sig þrjú börn: Tallulah, 7 ára, Willa, 5 ára og Cooper, 10 ára en barnsmóðir hans Mimi O'Donnell, listrænn stjórnandi hjá Labyrinth leikhúsinu í New York og hann hafa átt í löngu sambandi þó svo að þau bjuggu ekki saman þegar hann lést.
Minnast vinar og starfsbróður
Robert De Niro er meðal fjölmargra sem minnast leikarans. „Ég er mjög sorgbitinn yfir fráfalli Phil. Hann var stórkostlegur leikari. Þetta eitt af þessum skiptum sem þú segir: Þetta átti ekki að gerast.“
De Niro bætir við á vef BBC: „Hann var svo ungur og hæfileikaríkur og það var svo margt sem hann hafði til að lifa fyrir. Fjölskylda mín og ég sendum innilegar samúðaróskir til fjölskyldu hans.“
Julianne Moore, sem lék með Hoffman í Boogie Nights, Magnolia og The Big Lebowski segir að hún sé svo lánsöm að hafa þekkt og unnið með hinum einstaka Philip Seymour Hoffman og sé full sorgar yfir fráfalli hans.
George Clooney, sem lék með Hoffman í The Ides of March, segir að engin orð geti lýst þessu. Þetta sé einfaldlega hræðilegt.
Á Wikipedia er hægt að sjá lista yfir þær myndir sem hann lék í