Efast um sögu skipbrotsmannsins

Jose Salvador Alvarenga var í 13 mánuði á reki um …
Jose Salvador Alvarenga var í 13 mánuði á reki um Kyrrahafið. Skjáskot af Telegraph

Utanríkisráðherra Marshall-eyja, þar sem skipbrotsmaðurinn Jose Salvador Alvarenga dvelur nú eftir að hafa rekið um Kyrrahafið í 13 mánuði, er einn þeirra sem efast um sannleiksgildi sögu hans.

Alvarenga sagði m.a. í samtali við Telegraph að hann hafi íhugað að svipta sig lífi eftir að félagi hans, sem var með honum í bátnum er hann tók að reka, lést um borð.

Mennirnir tveir höfðu farið á hákarlaveiðar frá Mexíkó á 23 feta báti. Þetta var þann 21. desember árið 2012. Alvarenga er 37 ára en félagi hans var aðeins fimmtán ára. Alvarenga segist hafa lent í ofsaveðri og bátinn í kjölfarið rekið stjórnlaust á haf út.

Þrettán mánuðum síðar kom hann loks að landi Ebon-eyju sem tilheyrir Marshall-eyjum og hafði þá rekið um 8.800 kílómetra. „Ég vissi ekki hvað klukkan var, hvaða dagur, eða hvaða ár,“ sagði hann m.a. við Telegraph sem birti fyrst fjölmiðla viðtal við hann í morgun.

„Ég sá aldrei land. Tær sjór, tær sjór,“ sagði hann m.a. um reynslu sína. Hann segist hafa viljað deyja eftir að félagi hans lést. Þá höfðu þeir verið á reki í fjóra mánuði. „Í fjóra daga vildi ég svipta mig lífi. En ég gat það ekki, ég vildi ekki finna sársaukann. Ég gat ekki gert það.“

Alvarenga segist hafa veitt sér til matar, m.a. fugl og fisk. Hann hafi drukkið blóð úr bráð sinni, eigið þvag og safnað regnvatni.

Yfirvöld á Marshall-eyjum hafa hins vegar tekið sögu hans með varúð. Bandaríski sendiherrann á eyjunum er einn þeirra. „Það er erfitt að fyrir mig að ímynda mér að einhver geti lifað af 13 mánuði á sjó,“ hefur The Guardian eftir sendiherranum, Tom Armbruster. „En það er ljóst að þessi maður hefur gengið í gegnum hremmingar.“

Gee Bing, utanríkisráðherra Marshall-eyja, sagðist eftir fund sinn við Alvarenga hafa sínar efasemdir.

„Þetta hljómar ótrúlega og ég er ekki viss um að ég trúi sögu hans,“ hefur Guardian eftir honum. „Þegar við sáum hann var hann ekki horaður eins og aðrir sem lifað hafa af sambærilegt. Ég hef mínar efasemdir.“

Bing segir að maðurinn hafi engin skilríki á sér og enn eigi því eftir að staðfesta ýmislegt í sögu hans.

Erik van Sebille, ástralskur sjávarlíffræðingur, segir að það geti vel verið að bátinn hafi rekið frá Mexíkó og að Marshall-eyjum. Slíkt ferðalag gæti tekið 18 mánuði til tvö ár, hugsanlega 13 mánuði eins og í tilviki Alvarenga.

Frétt mbl.is: Ég grét - ó, Guð

Frétt Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert