Lögregla rannsakar nú andlát leikarans Philips Seymours Hoffmans. Á fréttavef CNN er greint frá því að lögregla hafi fundið tæplega 50 umslög með efni sem talið er að sé heróín í íbúð leikarans. Leikarinn lést í gær 46 ára að aldri en hann fannst meðvitundarlaus í íbúð sinni með sprautunál í handleggnum.
Nokkrar notaðar sprautunálar, lyfseðilsskyld lyf og tómir pokar sem talið er að hafi innihaldið heróín fundust einnig íbúðinni. Hoffman verður krufinn í dag.
„Við erum niðurbrotin vegna andláts okkar elskaða Phils og þökkum ást og stuðning sem við höfum fengið frá öllum,“ segir í tilkynningu sem fjölskylda Hoffmans sendi frá sér. „Þetta er átakanlegur og skyndilegur missir og biðjum við ykkur að gefa okkur næði á þessum miklu sorgartímum.“
Umslögin, sem voru tæplega fimmtíu, voru öll merkt með spaðaás. Að sögn CCN fundust rúmlega 20 notaðar sprautunálar í plastglasi í íbúð leikarans.
Frétt mbl.is: Áratuga fíkn lauk með dauða