Fjölmargir hafa minnst leikarans Philips Seymour Hoffman í dag, þar á meðal samstarfsmenn hans. Jennifer Lawrence, aðalleikkona Hungurleikanna, sagði hann hafa verið ótrúlegan leikara og hann hefði staðið sig afar vel í hlutverki Plutarchs. Lawrence sagði fráfall Hoffmans afar sorglegt. Leikarinn lést í gær, 46 ára að aldri, en hann fannst meðvitundarlaus í íbúð sinni með sprautunál í handleggnum, klæddur stuttbuxum og stuttermabol.
Leikaranum Ken Stott og Hoffman varð vel til vina við gerð myndarinnar Charlie Wilsons War. Stott lýsti leikaranum sem afar sannfærandi. „Þetta er virkilegt áfall,“ sagði Stott.
Leikstjóri myndarinnar, Mike Nicols, sagðist vera orðlaus. „Hann var of stórfenglegur og við erum of brotin.“
Í frétt BBC kemur fram að Hoffman hafi lokið tökum á þriðju myndinni um Hungurleikana en hún er byggð á þriðju bók Suzanne Collins, Mockingjay eða Hermiskaða. Tvær myndir verða byggðar á þriðju bókinni og átti Hoffman sjö daga eftir við tökur á fjórðu myndinni, seinni hluta þriðju bókarinnar. Stefnt er að frumsýningu þriðju myndarinnar 21. nóvember 2014 og 20. nóvember árið 2015.
Ljósin verða slökkt í eina mínútu á Brodway í New York á miðvikudaginn í minningu leikarans.
Frétt mbl.is: Fundu 50 umslög í íbúð Hoffmanns
Frétt mbl.is: Áratuga fíkn lauk með dauða