Vel fylgst með Flatanger

Hús í ljósum logum í bænum Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger …
Hús í ljósum logum í bænum Hasvåg í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi. EPA

Óttast er að enn leynist glóð í skóglendi í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum í Noregi, þar sem eldur kom upp í síðustu viku með þeim afleiðingum að um 90 hús brunnu til grunna. Grannt er fylgst með svæðinu.

Flugvélar og þyrlur fljúga reglulega yfir svæðið og mynda það með hitamyndavélum og í morgun varð vart við mikinn hita á þremur stöðum í skóglendinu.

Vatni er varpað á svæðið og enn er talin mikil hætta á að eldurinn brjótist aftur út, því afar þurrt er á þessum slóðum.

Síðastliðinn miðvikudag kom upp sinueldur á eyjunni Frøya sem er í Suður-Þrændalögum. Vel gekk að ná tökum á eldinum þar og talið er að hann hafi verið slökktur að fullu. Svæðið er þó enn vaktað, líkt og í Flatanger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert