Lögregla vinnur nú að því að fá skýrari mynd af síðustu dögunum í lífi leikarans Philips Seymour Hoffman. Rætt hefur verið við fjölskyldu hans og vini til að varpa ljósi á atburðarásina.
Leikarinn lést í gær, 46 ára að aldri, en hann fannst meðvitundarlaus í íbúð sinni með sprautunál í handleggnum, klæddur stuttbuxum og stuttermabol og var hann enn með gleraugun á sér.
Aðstoðarkona Hoffmans segist hafa séð hann á föstudaginn í íbúð hans. Í samtali við lögreglu sagðist hún ekki hafa séð neitt óvenjulegt við hann þennan dag. Þá hafi hann einnig virst vera í góðu lagi þegar hún ræddi við hann daginn eftir. Mimi O'Donnell, barnsmóðir Hoffmans, sagðist aftur á móti hafa talið að hann væri undir áhrifum einhverra efna þegar hún sá hann nærri íbúð hans klukkan 2 eftir hádegi á laugardag.
O'Donnell sagðist hafa rætt við hann í gegnum síma sex klukkustundum síðar og þá taldi hún einnig að hann væri í sama ástandi, einnig undir áhrifum einhverra efna. Það var svo daginn eftir, á sunnudeginum, sem Hoffman kom ekki að sækja börnin þeirra þrjú á heimili hennar.
Klukkan 11 fyrir hádegi bað hún handritshöfundinn David Bar Katz að athuga með Hoffman og hringdi hann í lögregluna um hálftíma síðar. Karz kom að honum meðvitundarlausum á baðherbergisgólfi íbúðarinnar um klukkan 11:15 fyrir hádegi að staðartíma, 16:15 að íslenskum tíma.
Talið er að Hoffman hafi látist eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum. Rannsóknarlögreglumenn reyna nú að finna þann eða þá sem seldu honum eiturlyfin. Sími leikarans hefur meðal annars verið skoðaður við rannsóknina. Þá vill lögregla einnig vita hvort einhver hafi verið með leikaranum þegar hann lést.
Frétt mbl.is: Slökkva ljósin í minningu Hoffmanns.
Frétt mbl.is: Fundu 50 umslög á heimili Hoffmanns.
Frétt mbl.is: Áratuga fíkn lauk með dauða.