„Enginn vafi á því að þetta er hann“

Jose Salvador Alvarenga
Jose Salvador Alvarenga AFP

Fiskimenn í Mexíkó segjast hafa leitað að Jose Salvador Alvarenga í nokkra daga eftir að hann skilaði sér ekki aftur eftir hákarlaveiðar í desember 2012. Alvarenga og 15 ára félagi hans eru sagðir hafa farið á hákarlaveiðar á litlum bát undan ströndum Mexíkó í desember árið 2012. Þeir lentu í vonskuveðri og tók að reka. Eftir nokkrar vikur á reki neitaði hinn ungi félagi Alvarenga að borða og lést skömmu síðar. Þeir félagar fóru til veiða frá þorpinu Costa Azul í Chiapas-ríki.

Fiskimennirnir segja að maturinn sem Alvarenga hafði meðferðis þegar hann hvarf væri aðeins til nokkurra daga. „Við erum hissa, en það leikur enginn vafi á því að þetta er hann,“ segir fiskimaðurinn William Uscanga eftir að hafa séð mynd af manninum. Mennirnir segja að Alvarenga hafi síðast sést í bænum Chocohuital áður en hann sigldi frá landi laugardagskvöldið 20. nóvember 2012, ekki mánuði síðar, líkt og áður hefur komið fram.

Alvarenga segist hafa veitt sér til matar, m.a. skjaldbökur, fiska og fugla. Þá hafi hann drukkið skjaldbökublóð og safnað regnvatni. 

Jaime Marroquín, starfsmaður strandgæslunnar sem fór fyrir leitinni á sínum tíma, segir að veður hafi verið mjög slæmt og að það sé alveg hugsanlegt að stormurinn hafi feykt bátnum lengst á haf út. Hann segir algengt að sjómenn fari í 1-2 daga róðra frá þorpinu, m.a. til að veiða hákarla og rækjur. Oftast séu þeir án allra siglingatækja.

„Það var mikill vindur,“ segir Marroquín í samtali við Guardian. „Við leituðum mikið en við urðum að hætta leit eftir tvo daga vegna slæms skyggnis.“.

Frétt mbl.is: Saga skipbrotsmannsins staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert