Hlakka til að sjá týnda soninn

Ricardo og Maria Julia Alvarenga, foreldrar Jose Salvador Alvarenga, mannsins sem sem segist hafa verið á reki um Kyrrahafið í 13 mánuði, segjast varla trúa því að hann sé á lífi. Hjónin sáu son sinn síðast fyrir átta árum. „Þetta er himneskt kraftaverk,“ sagði móðir hans, 54 ára, með tárin í augunum, í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Maria segist alltaf hafa haldið í vonina og búist við að hann kæmi heim einn daginn. Sérfræðingar hafa sagt að mögulegt sé að lifa ferð sem þessa af, við þessar erfiðu aðstæður, en aðrir trúa ekki sögu mannsins.

Alvarenga segist hafa veitt sér til matar, m.a. skjaldbökur, fiska og fugla. Þá hafi hann drukkið skjaldbökublóð og safnað regnvatni.

Maðurinn á 14 ára gamla dóttur, Fatimu, sem býr hjá foreldrum hans. Hún hefur ekki séð föður sinn í nokkur ár. Móðir stúlkunnar skildi hana eftir hjá foreldrum Alvarenga og flutti til Guatemala.

Utanríkisráðuneytið í El Salvador sagði í dag að unnið væri að því að senda Alvarenga aftur til El Salvador frá Marshall-eyjum. Til stendur að maðurinn fái bráðabirgðavegabréf.

Faðir mannsins, hinn 65 ára Ricardo, sagði að Alvarenga hefði farið til Mexíkó fyrir fimmtán árum til að vinna sem fiskimaður. Hann hefði haft gaman af fiskveiðum frá unga aldri.

Móðir hans bíður spennt eftir því að fá son sinn heim. „Við munum útbúa stóra máltíð, en munum ekki gefa honum fisk að borða þar sem hann hlýtur að vera kominn með nóg af honum,“ sagði hún í samtali við AFP-fréttastofuna.

Frétt mbl.is: „Enginn vafi á því að þetta er hann.“

Frétt mbl.is: Saga skipbrotsmannsins staðfest.

Samsett mynd. Til vinstri má sjá Alvarenga fyrir ferðina löngu …
Samsett mynd. Til vinstri má sjá Alvarenga fyrir ferðina löngu en hin myndin var tekin þegar hann til Marshall-eyja. AFP
Dóttir Alvarenga hlakkar til að sjá föður sinn og kynnast …
Dóttir Alvarenga hlakkar til að sjá föður sinn og kynnast honum. AFP
Frá hægri: Dóttir Alvarenga, faðir hans og móðir í El …
Frá hægri: Dóttir Alvarenga, faðir hans og móðir í El Salvador. AFP
Móðir Alvarenga.
Móðir Alvarenga. AFP
Ættingjar Alvarenga fagna því að hann sé loksins fundinn.
Ættingjar Alvarenga fagna því að hann sé loksins fundinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert